Heimsins hnoss: Söfn efnismenningar, menningararfur og merking. Fyrri málstofa: Efnismenning og söguritun (tvöföld málstofa)

Hamri 202, föstudaginn 20. maí kl. 9.00-12.15.

Á Þjóðskjalasafni Íslands liggja tæplega 30 þúsund uppskriftir dánar- og skiptabúa frá lokum 17. aldar til upphafs þeirrar 20. Þessar heimildir segja sögu fólks, karla og kvenna, ungra sem aldinna, í gegnum persónulegar eigur þeirra við andlát eða gjaldþrot. Hér má finna allt frá heilu bújörðunum ásamt bústofni til fúinna timburfjala og slitinna nærhalda.

Þó hafa íslensk sagn- og efnismenningarfræði sinnt þessum gögnum tiltölulega lítið. Í þessari málsofu munu þátttakendur í öndvegisverkefninu Heimsins hnoss fjalla um söfn efnismenningar eins og þau birtast okkur í uppskriftunum. Rætt verður um efnisveruleika ákveðinna þjóðfélagshópa, tíðni og útbreiðslu ákveðinna hluta og áhalda og hvernig ný efnismenning gjörbreytti heimilishaldi Íslendinga. Eins verður rætt um dánarbúin sem gagnasöfn, hvernig þau urðu til og hvernig þau endurspegla sögulegan veruleika fortíðarinnar í gegnum hluti.

Fyrirlestrar

  • Már Jónsson. „Gagnagrunnur um skiptagögn. Umfang og aðgengi“
  • Arnheiður Steinþórsdóttir. „„Að selja við opinbert uppboð ýmislegt lausafé [henni] tilheyrandi“. Lagasetning og framkvæmd opinberra uppboða á persónulegum eigum Íslendinga“
  • Sigurður Gylfi Magnússon. „Söfnun og einkahagir. Einkaskjalasöfn og merking þeirra“
  • Kristján Mímisson. „Hvað liggur í hlutarins eðli? Um mismunandi birtingarmyndir hluta og sögulega þýðingu þeirra“
  • Ágústa Edwald og Gavin Lucas. „Frá munaði til nauðsynja. Kaffineysla, áhaldaeign og vinnuframlag á 19. öld“
  • Guðný Hallgrímsdóttir. „Sjálfstæðar konur á 18. og 19. öld? Tilraun til að meta efnahagslega stöðu kvenna“
  • Davíð Ólafsson. „Heimildir um læsisiðkun á seinni helmingi 19. aldar í dánarbúum og handritum“

Málstofustjóri: Kristján Mímisson

Útdrættir

Gagnagrunnur um skiptagögn. Umfang og aðgengi 

Lýst verður vinnu við skráningu á dánarbúsuppskriftum, arfaskiptum og uppboðum í skjalasöfnum sýslumanna og hreppstjóra í Þjóðskjalasafni og héraðsskjalasöfnum. Fjallað verður um þessar heimildir og hvaða upplýsingar þær geyma en mest áhersla þó lögð á möguleika til leitar og athugana í gagnagrunni sem hefur verið settur upp á vefslóð Þjóðskjalasafns Íslands, danarbu.skjalasafn.is 

„Að selja við opinbert uppboð ýmislegt lausafé [henni] tilheyrandi“. Lagasetning og framkvæmd opinberra uppboða á persónulegum eigum Íslendinga. 

Opinber uppboð á persónulegum eigum einstaklinga – lagaleg þróun þeirra og framkvæmd – eru viðfangsefni þessarar greinar. Erindið skiptist í tvo hluta þar sem  í upphafi er rætt um þróun uppboða á 18. og 19. öld út frá lagasetningu og reglugerð um framkvæmd þeirra. Sú umfjöllun er sett í samhengi við upplýsingar úr skráningu á uppboðum sem fram hefur farið á vegum Heimsins hnoss. Helst er þar um tölulegar upplýsingar að ræða sem varpa ljósi á fjölda uppboða eftir tíma og landshluta og gefa þannig ákveðna mynd af þróuninni og ólíkum uppboðshefðum á milli svæða.  

Í seinni hluta greinarinnar fer fram samanburður á ólíkum uppboðum tveggja kvenna sem báðar fæddust í Eyjafirði í upphafi 19. aldar en lífshlaup þeirra varð um margt ólíkt. Markmiðið með þessum samanburði er að draga fram fjölbreytni heimildanna og sýna fram á hve ólíkar aðstæður gátu leitt til þess að persónulegar eigur einstaklinga voru settar á opinbert uppboð. Einnig er hér leitast við að varpa ljósi á framkvæmd uppboða, hlutverk embættismanna og þátttöku almennings á slíkum viðburðum. 

Söfnun og einkahagir. Einkaskjalasöfn og merking þeirra 

„Slow“ kallar á sköpunargáfu: viðkvæmar, hugmyndaríkar ígrundanir á fyrirbærum sem varða daglegt líf fólks. Slow er hugtak sem nær yfir margskonar hugmydir í listum, arkitektúr, staðbundna meðvitund og tímarannsóknir, sem endurspeglar meðvitund einstaklinga og sameiginlega hugun um lífsgæði. Einsögufræðingar hafa bent á að nauðsynlegt sé að nálgast rökrétt uppbyggingu rannsóknar á litlum einingum á annan hátt en þegar stórar rannsóknaspurningar eru settar á oddinn, það er efni sem flokkast sem „emperísk saga.“ Ætlunin er að tengja saman bæði einsögunálgunina og slow hugmyndafræði þegar hugað verður að merkingu arkífisins sem sögulegs fyrirbæris. Til skoðunar verða sérstaklega einkaskjalasöfn og rætt um merkingu þeirra, hvernig þau verða til og hvernig handahófskennd samsetning þeirra nýtist við sagnfræðirannsóknir. Grunnspurningin er þessi: Hvað er að finna í söfnum? 

Hvað liggur í hlutarins eðli? Um mismunandi birtingarmyndir hluta og sögulega þýðingu þeirra. 

Allt umhverfis okkur eru hlutir, hvers kyns þarfaþing. Veröldin sem við lifum og hrærumst í einkennist umfram allt af gripum og munum, aragrúa af bæði örsmáum og gríðarstórum hlutum. Mennsk tilvist er með öllu óhugsandi án hluta og í raun er mannkyssögunni best lýst sem einni samfelldri efnisvæðingu mannsins. Óhlutleg mennska, á sama hátt og ómennskir hlutir, er erfitt að sjá fyrir sér enda er tilvera manna og hluta samofin í órofa heild. Þessi orðræða gengur þó yfirleitt út frá því að hlutir séu efnislega til taks og uppfylli fullkomlega sitt fyrirframgefna efnislega hlutverk, séu til handagagns. Þetta afmarkaða sjónarhorn á hluti hunsar þá staðreynd að þeir birtast okkur á marga mismunandi vegu. Sumir eru notagripir en aðrir eru safngripir, þeir koma fyrir heilir og í brotum og þeir lifa í texta og á myndum til jafns við sinn hefðbundna efnislegan veruleika. 

Í þessu erindi mun ég velta mismunandi birtingarmyndum hluta fyrir mér. Hvernig breytast hlutir í samræmi við sínar ólíku birtingarmyndir? Hvernig er hlutur á mynd ólíkur eða eins og hlutur í texta? Hvernig er eðli hluta í brotum breytt í samanburði við hluti í heild? Og, hvaða áhrif hafa þessar ólíku birtingarmyndir hluta á söguritun? 

Frá munaði til nauðsynja. Kaffineysla, áhaldaeign og vinnuframlag á 19. öld 

Í dag ýtum við flest á takka til að fá kaffi í bollann okkar og dæsum jafnvel ef vélin gefur merki um að það vanti vatn eða baunir til kaffigerðarinnar. Um miðja nítjándu öld lá talsvert meiri vinna að baki kaffibollanum. Fyrst voru baunirnar brenndar svo malaðar, þá þurfti að sjóða vatn og blanda kaffið, oftast með tilheyrandi kaffibæti. Áður en margvísleg uppáhellingartæki og malað kaffi kom í verslanir fór öll þessi vinna fram inni á heimilunum.  

Í þessu erindi verður fjallað um kaffibollaeign íslenskra heimila á 19. öld eins og hún birtist í fornleifauppgröftum og dánarbúum og hún sett í samband við vaxandi innflutning á kaffibaunum. Það er augljóst að til aukinnar kaffineyslu þarf fleiri bolla og ýmisskonar önnur áhöld svo sem potta, katla og kvarnir – sem eru notuð oftar eftir því sem meira er drukkið af kaffi.  Hér verður leitast við að skýra hvernig þessi aukna neysla vatt upp á sig og lagt til að sú framleiðsla sem fólst í neyslunni sé lykilatriði í framvindunni. Samkvæmt útreikningum okkar fólst að meðaltali um eins dags vinna á ári í kaffineyslu meðal heimilis um aldamótin 1800, um aldamótin 1900 voru vinnudagarnir hinsvegar orðnir um fimmtíu.   

Sjálfstæðar konur á 18. og 19. öld? Tilraun til að meta efnahagslega stöðu kvenna  

Margvíslegar heimildir um hlutverk og stöðu kvenna má finna í varðveittum gögnum á Þjóðskjalasafni Íslands, svo sem kirkjubókum, búnaðarskýrslum, manntalsbókum, uppboðsgögnum og dánarbúsuppskriftum. Af þeim má sjá að konur á 18. og 19. öld  áttu húsdýr, sumar áttu tamda hesta en aðrar aðeins reiðtygi og af uppskriftum á eftirlátnum eigum kvenna má sjá að margar konur áttu eigin framleiðslutæki. Konur sinntu alls kyns sérhæfðri þjónustu sem nærsamfélag þeirra þarfnaðist á hverjum tíma. Hér má nefna, matvæla- og ullarframleiðslu, sauma- og prjónaskap, þvotta, sjósókn, umönnunarstörf, kennslu, yfirsetustörf og lækningar. Í erindinu verður gerð tilraun til að nýta áðurnefnd gögn á Þjóðskjalasafni til að varpa ljósi á efnahagslega stöðu kvenna á 18. og 19. öld. Spurt verður; Höfðu   konur tök á að selja þjónustu sína og afurðir sem þær fengu af húsdýrum sínum?  

Heimildir um læsisiðkun á seinni helmingi 19. aldar í dánarbúum og handritum.

Í skrá Más Jónssonar yfir dánarbúsuppskriftir, arfaskipti og uppboð er að finna alls 114 færslur tengdar Kaldrananessókn á Ströndum. Hin elsta er frá árinu 1794 en hin nýjasta frá 1899. Í þessu erindi verður tímarammin dreginn um árin 1860-1889 en frá þeim tíma eru 41 tilvik skráð innan sóknarinnar. Rýnt verður í dánarbúsuppskriftir og skiptaskrár í leit að bókum, handritum, ritföngum og öðrum gripum sem tengjast læsisiðkun og bókmenningu. Vitnisburðir dánarbúana í þessa veru verða bornir upp við aðrar heimildir sem vísa í sama landsvæði og sama tímaskeið, bæði ritaða heimildir sem og varðveitta gripi, þ.á.m. handrit. Markmið rannsóknarinnar er að greina hversu vel eða illa uppskriftir dánarbúa ná utan um bóka-, handrita- og ritfangaeign á íslenskum, bæði að efni og umfangi. Niðurstöðurnar verða settar í samhengi við nýlegar rannsóknir á handritamenningu og læsisiðkun seinni alda og velt upp spurningum um alhæfingargildi byggt á ólíkum heimildaflokkum.