Sögur og fylgdarmenn

Í Hamri 204, föstudaginn 20. maí kl. 9.00-10.30.

Sturlungaöld var mesti ófriðartími Íslandssögunnar en um leið mikið blómaskeið bókmenningar. Í málstofunni verða könnuð tengsl þessara þátta og sjónum einkum beint að heimilum höfðingja þar sem safnaðist saman fjöldi manna — fylgdarmanna — sem sérhæfðu sig í vopnaburði. Þeir voru eitt helsta valdatæki höfðingja og sköpuðu um leið tengsl milli þeirra og almennings í héraðinu, ýmist með vináttu eða ofbeldi. Fylgdarmannasveitir hafa lítið verið rannsakaðar fram að þessu og er full ástæða til að huga meira að þeim. Oft hafa bækur verið ritaðar á höfðingjasetrum eða fyrir höfðingjana og ætla má að tengsl séu milli þeirrar menningar sem birtist í bókmenntum, ekki síst Íslendingasögum, og þeirrar menningar sem var ríkjandi á höfðingjasetrunum og mótaðist að stórum hluta af nærveru hinna vopnuðu sveita fylgdarmanna. Þannig virðist líklegt að fylgdarmenn höfðingja hafi sett svip sinn á þá heimsmynd sem birtist í ýmsum Íslendingasögum og um leið hafi sögur, munnlegar eða ritaðar, mótað hugmyndaheim og gildismat fylgdarmanna. Sögur eru ekki tilgangslaus skemmtun heldur eru þær eitt helsta tækið sem mannleg samfélög hafa til að móta og samræma gildismat og hegðun meðlima sinna, eins og læra má af menningarlegri þróunarfræði. Það hefur gilt á Íslandi þrettándu aldar eins og annars staðar. Málstofan byggir á rannsóknarverkefni sem hlaut styrk hjá RÍM (Ritmenning íslenskra miðalda) árið 2020 og felur meðal annars í sér vinnslu gagnagrunns um þekkta fylgdarmenn nokkurra helstu höfðingja Sturlungaaldar. Einnig eru nokkur hugtök sem þeim tengjast könnuð í ýmsum greinum bókmennta eins og Íslendingasögum. Þeir sem halda fyrirlestra á málstofunni eru allir þátttakendur í þessu verkefni.

Fyrirlestrar

  • Viðar Hreinsson. „Fylgdarmenn í Íslendingasögum“
  • Axel Kristinsson. „Höfðingjar, sögur og fylgdarmenn“
  • Árni Daníel Júlíusson. „Fylgdarmenn og jarðir þeirra“

Málstofustjóri: Ingunn Ásdísardóttir.

Útdrættir

Höfðingjar, sögur og fylgdarmenn 

Á 13. öld héldu höfðingjar jafnan sveitir vopnaðra manna á heimili sínu og stundum töldu þær meira en 50 menn. Oftast voru þeir kallaðir fylgdarmenn og voru þeir jafnan stór hluti heimilismanna á höfðingjasetrum, að líkindum drjúgur meirihluti á stundum. Þeir voru ekki aðeins valdatæki höfðingja en gegndu einnig mikilvægu hlutverki í að skapa og rækta tengsl hans við íbúa héraðsins. Þeir voru að ýmsum uppruna, allt frá því að vera almúgamenn upp í höfðingjasyni en sennilega hafa flestir verið synir bjargálna bænda og sumir voru sjálfir bændur, stundum stórbændur, sem flökkuðu á milli eigin heimilis og höfðingjasetursins. Nægur tími hefur verið fyrir afþreyingu og er t.d. vitað um drykkjur, dansa og tafl en sögur voru einnig mikilvægar, ekki síst vegna þess að sumir höfðingjar stóðu sjálfir fyrir sagnaritun. Í fyrirlestrinum verður leitast við að greina félagslegt, pólitískt og menningarlegt hlutverk fylgdarmanna en ætla má að þeir hafi sett mark sitt á sagnamenningu og þær bókmenntir sem urðu til að á meðal þeirra. Um leið hafa sögunar átt þátt í að móta hugmyndaheim fylgdarmanna og binda héraðið saman í eina heild undir forystu höfðingjans. 
 
 

Fylgdarmenn og jarðir þeirra 

Í Sturlunga sögu segir oft frá jarðeignum fylgdarmanna, t.d. manna Kolbeins unga í Skagafirði. Er nokkur leið að átta sig á stéttastöðu fylgdarmanna út frá þessu? Voru þeir jarðeigendur eða sjálfseignarbændur? Áttu þeir bara jörðina þar sem þeir sátu og ekki aðrar? Almennt séð virðist fylgdarmannakerfið hafa snúist um samþættingu auðs og valda, eða valda og auðs, eins og oft var raunin á miðöldum. Höfðinginn hafði mikil völd og gat þá launað fylgdarmönnum sínum með jarðeignum. Formlegt eignarhald á jörð skipti þá oft litlu máli. Frásagnir af hrikalegum hryðjuverkum gegn bændum sem voru í hinu liðinu sýna að örugg og trygg vernd hlaut að vera mikið forgangsmál hjá bændum, og þeir fylktu sér þá væntanlega um öflugustu höfðingjana. Tillit verður að taka til allra þessara þátta og margra annarra þegar fjallað er um samhengið milli fylgdarmannasveita höfðingja og þess hvernig jarðeignamálum var háttað á Sturlungaöld. Nýjar fornleifarannsóknir á byggðasögu og sögu landnáms hafa bæst við og flækja málið enn. Til dæmis má nefna að jafnmargar eða fleiri hjáleigur virðast hafa verið í Skagafirði en lögbýli á 13. öld. Hvaða afleiðingar hafði það fyrir samfélagsmyndina sem blasti við höfðingjum og fylgdarmönnum þeirra? Hvar skipuðu hjáleigumenn sér í sveit, og er nokkurs staðar talað um þá? 
 

Fylgdarmenn í Íslendingasögum 

Fylgdarmenn hafa til þessa verið frekar vanrækt rannsóknarefni þótt augljóst sé að þeir skiptu ómældu máli í róstum Sturlungaaldar.  Það er því forvitnilegt að bera saman orðfæri og samhengi þess í Sturlungu annars vegar og Íslendingasögum hins vegar og hugsanlega tengsl á milli ritunar Íslendingasagna og átaka Sturlungaaldar. Fjölmargt getur komið í veg fyrir bein tengsl, meðal annars þróun greinarinnar, ritunartími og varðveisla en vel má ímynda sér að lífleg sagnaritun hafi þrifist á höfðingjasetrum sem síðan hafi að einhverju leyti borist í ritaðar sögur. Í fyrirlestrinum verður fjallað um könnun á notkun og tíðni orða og hugtaka sem tengjast þessu efni: fylgdarmaður, heimamaður, sveit og sveitungi, hvort þau gefi nokkrar vísbendingar um að róstur tímanna hafi haft áhrif á sagnagerðina.