Staðarhóll í Dölum: Höfuðból í minjum, sögu og sagnaritun

Í Hamri 203, föstudaginn 20. maí 13.30-15.00.

Markmið rannsóknarinnar er að varpa sem skýrustu ljósi á ritmenningu á slóðum Staðarhóls með áherslu á tímabilið 1100 til 1400. Sérstök áhersla verður á ritstörf Sturlu Þórðarsonar og handrit sem tengja má staðnum. Staðarhóll var höfuðból á 12. öld þegar Þorgils Oddason og synir voru meðal fremstu höfðingja á Íslandi. Árið 1191 kemst staðurinn í hendur Sturlunga og urðu um hann miklar deilur 1241 þar sem Sturla Þórðarson deildi við annan sonarson Hvamm-Sturlu, Órækju Snorrason, um forræði hans. Staðurinn var í eigu kirkjunnar að hálfu og kemur því við sögu í Staðamálunum undir lok 13. aldar. Á 16. öld komust veraldarhöfðingjar aftur yfir staðinn þegar Páll Jónsson (Staðarhóls-Páll) bjó þar. Meðal helstu rannsóknarefna eru tekjur staðarins og rekstur. Athugun á máldögum og öðrum skjölum staðarins er ætlað leiða í ljós hverjar tekjur Staðarhóls voru og hvernig þær þróuðust frá um 1100 og fram til um 1700. Einnig er ætlunin að kanna hvernig búskap og búrekstri háttað á Staðarhóli í gegnum aldirnar. Niðurstöður greiningar á þessum upplýsingum má nota til að varpa skýrara ljósi á þróunina á miðöldum, sem lesa má úr máldögum og öðrum fornbréfum. Annað mikilvægt rannsóknarefni er hvernig Staðarhóll tengdist þjóðleiðum yfir á Vestfirði. Þar eru könnuð sagnarit og máldagar frá því um 1100 og fram til um 1350. Í fornleifahluta rannsóknarinnar eru bæjarstæði Staðarhóls, hjáleigur, engjar og úthagar, seljalönd, ítök og auðlindir í forgrunni. Einnig verður hugað að víðara samhengi landshátta og gerðar athuganir á minjum í Staðarhólsdal, m.a. til að kanna varðveislu, en einnig til að kanna skipulag og þróun byggðar.  Rannsóknin í heild sinni mun færa okkur nær því að skilja staðarval, landshætti og samfélagi Staðarhóls á miðöldum, höfundinn Sturlu og verk hans. Í málstofunni verður greint frá fyrstu niðurstöðum.

Fyrirlestrar

  • Elín Ósk Hreiðarsdóttir og Kristborg Þórsdóttir. „Vitnisburður fornleifanna: Kortlagning menningarlandslags í Staðarhólsdal og nágrenni“
  • Sandra Gunnarsdóttir. „Þjóðleiðir í Dölum á hámiðöldum“
  • Emil Gunnlaugsson. „Staðarhóll. Auður, vald og menning 1100–1700“

Málstofustjóri: Sverrir Jakobsson.

Útdrættir

Menningarminjar á Staðarhólsdal: samband menningarlandslags og sagnaritunar.  

Árið 2020 hófst fjölfagleg, þriggja ára rannsókn á jörðinni Staðarhóli og sagnaritaranum Sturlu Þórðarsyni. Verkefnið er styrkt af sjóðnum Ritmenning íslenskra miðalda (RÍM) og er markmið þess að efla rannsóknir á verkum Sturlu, auka skilning á því umhverfi sem hann og verkin eru sprottin úr og miðla þeirri þekkingu til fræðimanna og almennings.  

Rekstur Staðarhóls hefur skipt höfuðmáli fyrir ritmenninguna sem þar blómstraði og er því lögð áhersla á að rannsaka jörðina og svæðið umhverfis með tilliti til menningarminja, landshátta, landgæða, samgangna og tekna. Í erindinu verður greint frá markmiðum verkefnisins og farið yfir helstu niðurstöður fornleifarannsókna fyrsta árs en sumarið 2020 voru allar þekktar minjar skráðar í landi Staðarhóls, hjáleigum staðarins og öðrum jörðum í Staðarhólsdal sem honum tilheyrðu.  

„Þjóðleiðir í Dölum á hámiðöldum“

Árið 2020 voru landsmenn hvattir til að ferðast innanlands vegna heimsfaraldurs Covid-19. Í stað þess að sleikja sólina á erlendri ströndu brugðu margir Íslendingar útaf vananum og nýttu sumarið til þess að kynnast landinu á nýjan hátt. Í rauninni er ekki er svo langt síðan að landsmenn höfðu tækifæri eða fjármagn til að fara út fyrir landsteinana líkt og tíðkast í dag. Vel og lengi var ekki aðeins erfitt að komast til útlanda heldur var það einnig þrautinni þyngra að ferðast á milli landshluta hérlendis. Þjóðleiðir gegna gífurlega mikilvægu hlutverki í hrjóstrugu landi sem og Íslandi og hefur sú verið raunin frá upphafi byggðar. Samgöngumál og uppbygging þjóðleiða voru í algjörum forgangi allt frá upphafi landnáms til loka Þjóðveldisaldar en stóðu síðan að vissu leyti í stað þar til um miðja 20. öld. 

Þjóðveldisöldin var einn mesti umbrotatími Íslandssögunnar og fjölgaði vegum í öllum landsfjórðungum og þá sérstaklega í kringum valdamiðstöðvar. Í Dölum fjölgaði höfðingjabólum á Sturlungaöld og hafði það í för með sér styrkingu þjóðleiða til og frá svæðinu. Hvernig ferðuðust menn á þessum tíma? Hvaða leiðir voru farnar? Í þessu erindi verður farið yfir mikilvægustu þjóðleiðir Dalasýslu á landi og sjó, aðferðir og aðbúnað manna ásamt veðurfari og landslagi fyrri alda. Hlutverk og staðsetning höfuðbólsins Staðarhóls verður sérstaklega tekið fyrir. Með samanburði á gömlum og nýjum landakortum og ritheimildum fyrri alda verður varpað ljósi á samgöngumál og þjóðleiðir í Dölum 1100 – 1300.  

Bændakirkja og staður. Höfuðbýlið Staðarhóll í Saurbæ 1250–1800.

Grundvöllur auðs á miðöldum fram til árnýaldar voru jarðeignir líkt og víða annars staðar. En skipulag auðsöfnunarinnar hverfðist í kringum jarðeignarsöfn og hjörtu þeirra voru stórbýlin eða svokölluð höfuðbýli. Höfuðbólið var miðpunkturinn í skipulagi byggðarinnar og speglar einnig félagstengsl samfélagsins sem voru vafinn inn í þetta fyrirkomulag. Auðug landeignaryfirstétt sat efst í pýramídanum á höfuðbólunum landsins, fyrir neðan leiguliðar á tengdum jörðum, hjáleigum og svo þurrabúðarfólk. Þaðan rann umframframleiðsla samfélagsins upp á við. Höfuðbólin og þau jarðeignarsöfn sem þeim tilheyrðu voru einnig í sjálfu sér efnahags- og félagslegar einingar, þar sem höfuðbólin voru alla jafna miðstöðvar trúar- og stjórnsýslulegrar starfsemi. Höfuðbýlið var oftast stærsta jörðin í einhverju tilteknu eignasafni en saman mynduðu þessi eignasöfn félagslega og hagræna einingu og rammann utan um samfélagsleg yfirráð yfirstéttarinnar. 

Hér í þessu erindi verður sagt frá rannsóknum á höfuðbýlinu Staðarhóli sem var fyrir marga parta nokkuð sérstakt höfuðból. Eignarhald Staðarhóls er eitt af því sem sker sig út, kirkjan og þar með býlið var svokölluð bændakirkja – oftast – en það sérstaka var að Staðarhóll var hálfur staður. Afar óvenjulegt var að kirkja væri á sama tíma staður og að hálfu í eigu veraldlegra valdsmanna, þótt slíkt hafi verið þekkt á stöku stað. Þá mætti geta að kirkjan náði á 15–16. öld fullum yfirráðum yfir kirkjunni en Staðarhóls–Páll komst yfir hana eftir Siðaskiptastríðið, og þar með var kirkjan eftir það ávalt að hálfu í eigu höfðingja. Staðarhóll var líka auðugasta bændakirkja landsins í byrjun 18. aldar eins og jarðabækur frá 1703 vitna um. Hvernig má svo vera? Sagt verður frá eigum, tekjum, búskap á Staðarhóli o.fl. til þess að varpa ljósi á þróun höfuðbóls yfir rúmlega fimm aldir.