Ársskýrsla 2000

Lögð fyrir ársfund stofnunarinnar 1. febrúar 2002

Stjórnarskipan og starfsmenn

Stjórnina skipuðu á árinu Loftur Guttormsson sem gegndi starfi forstöðumanns, Guðmundur Jónsson og Guðrún Harðardóttir fulltrúi stúdenta. Starfsmaður stofunarinnar var Eggert Þór Aðalsteinsson. Hafði hann milligöngu um fjölritun kennslugagna og sölu þeirra í Guðnastofu og sá auk þess um skráningu aðfenginna rita í Guðnastofu.

Gistifræðimenn og fyrirgreiðsla

Agnete Ney, sænskur sagnfræðingur, naut fyrirgreiðslu sem gistifræðimaður stofnunarinnar á vormissseri. Jesse L. Byock, bandarískur prófessor, naut áfram nokkurrar fyrirgreiðslu vegna tölvupósts. Sama er að segja um Hrefnu Róbertsdóttur sem vinnur að doktorsritgerð við Lundarháskóla; Hrefna hafði auk þess vinnuaðstöðu í Hugvísindastofnun á Nýja Garði í janúar og svo aftur frá ágústmánuði að telja.

Páll Björnsson sagnfræðingur, sem hlaut rannsóknarstöðustyrk Rannís í ársbyrjun, hafði vinnuaðstöðu í Hugvísindastofnun frá því í apríl.

Húsnæði og vinnuaðstaða

Sagnfræðistofnun hefur umráð yfir herberginu Hafnir í Húnaþingi á 3. hæð í Nýja Garði. Herbergið nýttu sameiginlega tveir doktorsnemar, þar af annar í sagnfræði. Fjórir aðrir doktorsnemar í sagnfræði (þrír frá því í ágúst sl.) nutu auk þess aðstöðu í húsakynnum Hugvísindastofnunar. Doktorsnemarnir eru hluti af því líflega fræðasamfélagi sem hefur verið að mótast undanfarið undir hatti Hugvísindastofnunar. Aðstaða fer þar batnandi; m.a. hefur verið opnuð bókastofa með vísi að tímrita- og handbókakosti, einkum til afnota fyrir stúdenta í framhaldsnámi.

Hugvísindastofnun sótti í Tækjakaupasjóð um styrki til tölvukaupa fyrir einstakar stofnanir, þ.á m. Sagnfræðistofnun. Fékk stofnunin úthlutað einni tölvu sem verður brátt aðgengileg til afnota. Til bráðabirgða var á árinu keypt notuð tölva sem komið var fyrir í Guðnastofu; hefur tækið nýst einkum aðstoðarmönnnum kennara, þeim Eggert Þór Aðalsteinssyni og Nirði Sigurðssyni (aðstoðarmanni Guðmundar Jónssonar) og Steinþóri Heiðarssyni (aðstoðarmanni Gunnars Karlssonar).

Hugvísindastofnun 

Helgi Þorláksson sat í stjórn Hugvísindastofnunar; til setu þar var hann kosinn til þriggja ára 1998, en þá var hann forstöðumaður Sagnfræðistofnunar. Stjórnin er að jafnaði skipuð fulltrúum stofnananna fimm sem aðild eiga að Hugvísindastofnun, auk fulltrúa framhaldsnema. Í orlofi Helga á vormisseri hljóp núverandi forstöðumaður í skarðið.

Reglur um Hugvísindastofnun eru í endurskoðun. Uppkast að reglum var lagt fyrir deildarfund í desember, en hann vísaði þeim til deildarráðs til umsagnar. Uppkastið kemur senn til umræðu í sagnfræðskor. Reglurnar gera m.a. ráð fyrir því að forstöðumenn hinna ýmsu stofnana sitji í stjórn Hugvísindastofnunar; slíkt sýnist eðlilegt svo að samskiptin þarna á milli verði sem beinust og greiðust.

Fjárveiting til Hugvísindastofnunar, að upphæð um 11.000 þús. kr., gekk að meira en helmingi til stofnananna fimm sem eiga aðild að henni; fékk hver þeirra jafnan hlut, 1.240 þús. kr. Laun til starfsfólks Hugvísindastofnunar og stjórnarmanna voru áætluð um 4.200 þús.. kr. Miðað við árið 1999 skertist hlutur Sagnfræðistofnununar af framlagi Hugvísinda-stofnunar um 160 þús. kr. Hinn þröngi fjárhagur stendur jafnt Hugvísindastofnun sem aðildarstofnunum hennar fyrir þrifum. Þetta varðar ekki síst eflingu framhaldsnáms. Vonir stóðu til að gengið yrði á árinu frá rannsóknasamningi við stjórnvöld, en það frestast fram á þetta ár.

Fjármál

Framlag Hugvísindastofnunar til Sagnfræðistofnunar nam 1.240 þús. kr.; nokkrar tekjur urðu af sölu kennsluefnis og bóka í Guðnastofu. Aðrar tekjur voru einkum styrkir til útgáfu (300 þús.) og til þátttöku í heimsþingi sagnfræðinga (150 þús.).

Helstu útgjaldaliðir voru laun fyrir samningu og frágang handrita sem gefin voru út og rannsóknastyrkir til kennara. Stjórnin samþykkti að hafa styrkupphæð óbreytta frá fyrra ári, kr. 35 þús. Til hagræðis í umsýslu og bókhaldi var styrkurinn lagður inn á verknúmer hvers fastráðins kennara; fæst rannsóknakostnaður endurgreiddur gegn framvísun reikninga hjá gjaldkera í Aðalbyggingu.

Afar illa hefur gengið að fá uppgjör frá Háskólaútgáfunni vegna þeirra rita sem hún hefur gefið út undanfarin ár í samvinnu við stofnunina og önnur eldri sem hún hefur séð um sölu á. Framkvæmdastjóri Hugvísindastofnunar og forstöðumaður Sagnfræðistofnunar kölluðu á tímabilinu ítrekað eftir uppgjöri, en það barst fyrst í dag, 1. febrúar! Í þessu síðbúna uppgjöri hefur Háskólaútgáfan reiknað sér lager- og flutningskostnað sem hún hefur aldrei samið um við Sagnfræðistofnun og forstöðumaður hefur því talið stofnunina óbundna af. Að meðreiknuðum umræddum lagerkostnaði telst Sagnfræðistofnun vera í liðlega 500 þús. kr. skuld við Háskólaútgáfuna. Hér vegur þyngst útgáfa nýjasta ritsins, Æska og saga. Styrkur sem Háskólinn á Akureyri veitti til útgáfu Æsku og sögu, að upphæð kr. 300 þús. kr., dugði þó ríflega fyrir höfundalaunum.

Þótt staða stofnunarinnar gagnvart Háskólaútgáfunni sé ekki enn útkljáð, er ljóst að við árslok var fjárhagsstaða stofnunarinnar viðunandi (sjá reikningsyfirlit).

Sem fyrr fór allt fé stofnunarinnar um hendur bókhalds skólans (fjármálasviðs), en tekin var upp sú nýskipan að forstöðumaður afgreiðir reikninga í hendur framkvæmdastjóra Hugvísindastofnunar sem afgreiðir þá fyrir sitt leyti til gjaldkera og bókhalds. Hið nýja tölvuforrit, Navision Financial, hefur gefist misjafnlega. Efnislyklarnir, sem reikningar eru flokkaðir eftir, henta misvel til þess að skýr mynd fáist af einstökum útgjaldaliðum.

Heimasíða

Heimasíða stofnunarinnar á Netinu var rækilega endurskoðuð. Verkið annaðist Guðrún Harðardóttir stjórnarmaður; sá hún jafnframt um viðhald síðunnar með aðstoð Hlífar Arnlaugsdóttur. Heimasíðan birtir m.a. reglugerð stofnunarinnar, yfirlit yfir útgáfurit og rannsóknarverkefni á vegum hennar, sem og helstu verkefni sem kennarar fást við í rannsóknum sínum.

Útgáfumál 

Tvö ný rit komu út á vegum stofnunarinnar: 1) Voyages and Explorations in the North Atlantic from the Middle Ages to the XVIIth Century (140 bls.). Um er að ræða bráðabirgðaútgáfu, undir ritstjórn Önnu Agnarsdóttur, á sjö erindum sem voru kynnt (sem hringborðsefni) á Heimsþingi sagnfræðinga í Ósló í ágúst sl. Þessari bráðabirgðaútgáfu var dreift ókeypis til þátttakenda í fundinum, en annars var hún til sölu á þinginu; 2) Dulsmál 1600–1900. Fjórtán dómar og skrá (286 bls.) sem Már Jónsson sá um útgáfu á. Þetta er annað bindi í ritröðinni Heimildasafn Sagnfræðistofnunar sem Anna Agnarsdóttir er ritstjóri fyrir. Háskólaútgáfan sá um útgáfu beggja þessara rita.

Auk ofangreindra bóka var unnið að útgáfu á riti eftir Hrefnu Róbertsdóttu um Innréttingarnar í ritröðinni Sagnfræðirannsóknir sem Gunnar Karlsson ritstýrir. Í Ritsafni Sagnfræðistofnunar kom ekkert út á árinu, en væntanlega birtast þar tvö rit á þessu ári. Ritstjóri er Guðmundur Hálfdanarson.

Á árinu var unnið að útgáfu ritsins Aspects of Arctic and Subarctic History sem Sagnfræðistofnun á aðild að (í samvinnu við Háskólaútgáfuna ásamt utanríkisráðuneytinu og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar). Ritstjórar eru Ingi Sigurðsson og Jón Skaptason. Þetta er mikið rit, yfir 600 bls., og geymir yfir 60 fyrirlestra sem fluttir voru á fjölþjóðlegri ráðstefnu um sögu norðurslóða sem haldin var í Reykjavík 1998. Ritið er nú í prentun. Greint var frá fjármögnun útgáfunnar í síðustu ársskýrslu. Styrkur frá Norrænu ráðherranefndinni, 50 þús. danskar krónur sem þar gat um, fékkst snemma á árinu. Þar með á fjárhagsgrunnur útgáfunnar að vera tryggður. Tekið skal fram að Sagnfræðistofnun á ógreiddan til hennar styrk að upphæð kr. 100 þús.

Rannsóknarverkefni 

Saga íslenskrar utanlandsverslunar 900-2002

Um markmið og tildrög verkefnsisins getur í ársskýrslu fyrir 1999.

Sami undirbúningshópur starfaði áfram að verkefninu, undir forystu Helga Þorlákssonar, nema hvað Þorleifur Óskarsson tók ekki beinan þátt í því Starfið á árinu beindist ekki síst að fjáröflun. Rannís veitti verkefninu einkunnina A+ og hæsta styrk í febrúar, 1,2 milljónir, en sótt hafði verið um 3,7 milljónir. Meginvandi var að tryggja nægjanlegt fé til þess að Halldór Bjarnason gæti einbeitt sér að verkinu. Hann sótti um rannsóknarstöðustyrk en fékk ekki (fékk hins vegar nokkurn styrk frá Rannís til að ljúka doktorsritgerð sinni). Sótt var í sjö menningarsjóði bankastofnana og tryggingarfélaga. Á útmánuðum komu til ráðuneytis um fjáröflun Jónas Haralz, Jóhannes Nordal og Jóhann J. Ólafsson, ásamt Margréti S. Björnsdóttur, framkvæmdastjóra á samskipta- og þróunarsviði Háskóla Íslands. Víglundur Þorsteinsson hjá BM Vallá veitti og góð ráð. Miðað var við þörf upp á 3-3,5 milljónir, fram yfir styrk frá Rannís, til að halda verkinu gangandi árin 2000 og 2001. Eftirtalins fjár tókst að afla:

Rannís 1.200 þús. kr.

Menningarsjóður Íslandsbanka 200 " "

Rannsóknarframlag bankanna (skipt á þrjú ár) 1.000 " "

Árvakur 100 " "

Útflutningsráð 250 " "

Alþingi (fjárlaganefnd) 2.000 " "

4.750 þús. kr.

Að auki hlaut Helgi Þorláksson styrk frá rannsóknasjóði Háskóla Íslands til að ráða aðstoðarmenn (Ragnheiði Mósesdóttur og Viðar Pálsson). Guðmundur Jónsson réð Eggert Þór Aðalsteinsson og Halldór Bjarnason nýtur aðstoðar Nikulásar Ægissonar; er þessum tveimur aðstoðarmönnum greitt af styrknum frá Rannís.

Á miðju ári taldi Halldór Bjarnason fjáröflunarhorfur ekki nægilega góðar og réð sig til starfa í framhaldsskóla. Hann mun starfa að fullu við verkefnið frá miðju ári 2001.

Helgi Þorláksson naut rannsóknamisseris vorið 2000 og sinnti einkum verslunarsögu 16. aldar við könnun skjala í Kaupmannahöfn.

Anna Agnarsdóttir kannaði skjöl á Bretlandi og naut til þess fjár af framlagi Menningarsjóðs Íslandsbanka.

Þverfaglegt rannsóknarverkefni tengt Reykholti í Borgarfirði ("Reykholtsverkefni"). 

Um markmið og bakgrunn þessa verkefnis sjá ársskýrslu 1999.

Árið 2000 urðu mannabeytingar á Þjóðminjasafni og stjórn verkefnisins var endurskipuð. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður varð formaður stjórnar, og þeir Bergur Þorgeirsson frá Snorrastofu og Helgi Þorláksson, fulltrúi Sagnfræðistofnunar, sátu áfram í stjórninni. Guðrún Gísladóttir, lektor í jarð-og landfræðiskor, kom inn í stjórnina sem fulltrúi Raunvísindastofnunar og Haukur Jóhannesson sem fulltrúi Náttúrufræðistofnunar Íslands. Guðrún Sveinbjarnardóttir fornleifafræðingur var sem fyrr framkvæmdastjóri verkefnisins, en hún stjórnaði jafnframt uppgeftrinum í Reykholti. Einnig tengist alþjóðlegur hópur ráðgjafa verkefninu og mun Svavar Sigmundsson, forstöðumaður Örnefnastofnunar, fara fyrir honum.

Allt stefnir í það að farið verði af stað með ýmis verkefni innan þess ramma sem settur er í skýrslunni Reykholt in Borgarfjörður. An interdisciplinary research project sem til varð eftir vinnufund í Reykholti í ágúst 1999. Vonir eru bundnar við erlent samstarf, ekki síst við samvinnu norskra fræðimanna. Snorrastofa hefur gert samstarfssamning við Björg-vinjarháskóla og samvinna við fleiri stofnanir í Noregi er í athugun.

Reykholtsverkefnið er í tengslum við fornleifarannsóknir að Hálsi í Reykholtsdal sem Kevin Smith, Buffalo Museum of Science, stjórnar, en hann á sæti í ráðgjafarhópi Reykholtsverkefnis. Stefnt er að enn meiri og nánari samvinnu og tengslum hans við Reykholtsverkefnið.

Í sumar sem leið var unnið að því að gera kortagrunn fyrir Reykholt og næsta nágrenni með landfræðilegum upplýsingum og setja jafnframt inn í hann ýmsar aðrar upplýsingar, svo sem um fornleifar, örnefni (eftir nýju kerfi) og leiðir. Umsjón með verkefninu var einkum í höndum Guðrúnar Gísladóttur lektors og hlut að því áttu Örnefnastofnun og Sagnfræðistofnun, en Nýsköpunarsjóður, Örnefnastofnun, Vegagerðin og fleiri studdu verkefnið. Starfsmaður var Tryggvi Már Ingvarsson, nemandi í landafræði og sagnfræði. Starf Tryggva Más leiddi til þess að hann ákvað að semja BS ritgerð um leiðir í nágrenni Reykholts í Borgarfirði að fornu og nýju og lauk henni í janúar 2001. Leiðbeinendur voru Helgi Þorláksson og Ingibjörg Jónsdóttir, dósent í jarð-og landfræðiskor.

Uppgröfturinn í Reykholti hefur gengið vel og horfur eru á að hann haldi áfram af fullum krafti. Vilji er til að færa enn út kvíarnar og ráðast í æ stærri verkefni á fornleifasviðinu.

Tveir nemendur í sagnfræði hafa unnið að BA ritgerðum sem tengjast verkefninu, annar um staðinn í Reykholti, hinn um staðinn í Stafholti. Þess er vænst að skjöl frá seinni öldum geti varpað ljósi á rekstur staðanna í tíð Snorra Sturlusonar sem hafði forráð fyrir báðum.

Karl G. Johansson, lektor í Växsjö í Svíþjóð, sem tók þátt í vinnufundinum í Reykholti 1999 og er í ráðgjafarhópi verkefnisins, hefur unnið að áætlun um vissan verkþátt og tekið saman greinargerð, ‘Reykholt och den europeiska skriftkulturen’. Þarna eru læsi og skriftarkunnátta sett á oddinn og stefnt að því að setja íslenska ritmenningu í evrópskt samhengi. Þessu undirverkefni hefur verið skipuð samnorræn stjórn og eiga þar m.a. sæti Bergur Þorgeirsson og Guðrún Nordal. Sótt hefur verið um styrk til NorFA til að halda vinnufund á útmánuðum í Reykholti um umrætt efni og fleiri sem tengjast því.

Gagnagrunnur í íslenskri fólksfjöldasögu

Hér er um er að ræða verkefni sem er á undirbúningsstigi. Markmiðið er að ganga úr skugga um möguleika á að koma á fót gagnagrunni í íslenskri fólksfjöldasögu. Forgöngu um þetta hafa þrír kennarar í sagnfræðiskor, Guðmundur Hálfdanarson, Guðmundur Jónsson og Loftur Guttormsson ásamt Ólöfu Garðarsdóttur, doktorsnema við háskólann í Umeå. Safnað hefur verið upplýsingum um nokkra fólksfjölda-gagnagrunna á Norðurlöndum, einkum í Umeå, Tromsø og Odense. Þá hefur verið rætt við Friðrik Skúlason til þess að kanna möguleika á að fá að nýta í ofangreindum tilgangi þau manntöl sem hafa þegar verið tölvutekin á vegum fyrirtækis hans.

Hópurinn hefur haldið fund með starfsmönnum Þjóðskjalasafns og Hagstofu. Íslands (Björk Ingimundardóttur og Magnúsi S. Magnúsyni); góðar líkur eru til að þessar stofnanir yrðu fúsar til samstarfs við Sagnfræðistofnun um uppbyggingu fólksfjölda-gagnagrunns. Þá átti hópurinn fund í október með Gunnar Thorvaldsen, forstöðumanni fólksfjölda-gagnagrunnsins í Tromsö. Gunnar hefur um árabil átt samstarf við gagnagrunnsmenn við háskólann í Minnesota sem vinna með bandarík og kanadísk manntöl; stefna þeir að því að víkka samstarfið út fyrir Noreg til Skotlands og Íslands. Ólöf Garðarsdóttir átti fund með Minnesota-mönnum í nóvember og var þar ákveðið að sækja um fjárstyrk í bandarískan sjóð til þessa samvinnuverkefnis (North Atlantic Database Project).

Í ráði er að sækja um styrki til frekari undirbúnings verkefnisins um íslenskan fólksfjölda-gagnagrunn.

Þing með aðild Sagnfræðistofnunar eða Landsnefndar íslenskra sagnfræðinga

Forstöðumaður tók við formennsku í landsnefndinni í samræmi við þá skipan sem mótast hefur undanfarin ár. Auk Sagnfræðistofnunar eiga Sagnfræðingafélag Íslands og Þjóðskjalasafn Íslands aðild að nefndinni. Landsnefndin var á árinu riðin við þátttöku í eða undirbúning að þremur þingum.

Heimsþing sagnfræðinga í Ósló 2000 

Til kasta Landsnefndar kom að reyna að greiða fjárhagslega götu þriggja doktorsnema og Önnu Agnarsdóttur til þátttöku í 19. heimsþingi sagnfræðinga í Ósló, en öll fjögur fóru þar með formlegt hlutverk. Í þessu skyni var sótt um styrk til menntamálaráðu-neytisins, og fengust 150 þús. kr. Að frumkvæði landsnefndar hafði verið stofnað til hringborðsefnis, Voyages and Exploration in the North Atlantic from the Middle Ages to the XVIIth century; landsnefndin fékk Önnu Agnarsdóttur til að taka að sér að undirbúa hringborðsstefnuna og stjórna henni og Helga Þorláksson til að flytja einn af fyrirlestrunum. Stofnunin veitti Önnu nokkurn viðbótarstyrk til farar. Þessi hringborðsstefna þótti takast með ágætum.

F.h. landsnefndar sótti forstöðumaður ásamt Önnu Agnarsdóttur aðalfund Heimssamtaka sagnfræðinga (General Assembly of the International Committee of Historical Sciences) sem haldinn var í Ósló meðan á heimsþinginu stóð. Hér var kosin stjórn heimssamtakanna, með Jürgen Kocha sem forseta og Evu Österberg sem varaforseta, og ákveðið að næsta heimsþing yrði haldið í Sidney í Ástralíu árið 2005.

Í tengslum við þennan fund var athygli forstöðumanns vakin á því að landsnefndin skuldaði þá samtökunum árgjald fyrir árin 1998, 1999 og 2000. Hefð hefur verið fyrir því að Þjóðskjalasafnið greiði árgjaldið; fyrir árslok samdist svo um að safnið greiddi árgjald fyrir árin 1998 og 1999, en Sagnfræðingafélagið fyrir árið 2000.

Norræna sagnfræðingaþingið í Árósum 2001

Á fyrra ári var að mestu leyti lokið við að skipuleggja þátttöku íslenskra sagnfræðinga í formlegri dagskrá 24. norræna sagnfræðingaþingsins í Árósum 9.–13. ágúst 2001. Fáeinir þátttakendur bættust þó við, í "hringborðsefnum" og "frjálsum fyrirlestrum". Tólf íslenskir sagnfræðingar munu vera riðnir við hina formlegu dagskrá þingsins.

Söguþing 2002

Á árinu var haldið áfram undirbúningi Söguþings 2002. Mannaskipti urðu í undirbúnings- nefnd þegar Helgi Þorláksson lét af störfum og við tók Guðmundur Jónsson fyrir hönd Sagnfræðistofnunar. Þá tók Halldór Bjarnason sæti Sigurðar G. Magnússonar af hálfu Sagnfræðingafélags Íslands. Undirbúningsnefndin fékk tvo nýja menn til liðs við sig, þær Margréti Gestsdóttur og Kristjönu Kristinsdóttur. Auglýst var eftir efnum á dagskrá

þingsins í júní og rann frestur til að skila tillögum út 1. október. Ákveðið hefur verið að Söguþing verði haldið dagana 30. maí til 1. júní 2002. Stefnt er að því að dagskráin verði eitthvað minni í sniðum en 1997.

Verið er að leggja lokahönd á uppgjör fyrir Íslenska söguþingið 1997; bendir allt til þess að það hafi staðið undir sér fjárhagslega.

Minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar

Stjórn stofnunarinnar bauð Sølvi Sogner, prófessor í sagnfræði við Óslóarháskóla, að flytja Minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar og halda málstofu. Að þessu sinni var fyrirlestrinum komið fyrir innan ramma Hugvísindaþings, í Hátíðarsal föstudaginn 13. október kl. 16.00. Fyrirlestur Sogner nefndist "Ekteskap i Norge etter reformasjonen". Á undan minntist Loftur Guttormsson Jóns Sigurðssonar í stuttu máli. Daginn eftir hélt Sogner málstofu á vegum stofnunarinnar með kennurum, nemum og gestum; fjallaði hún um efnið "Migrasjon i Norge i tidlig moderne tid." Fyrirlesturinn var þokkalega vel sóttur en málstofan miður. Þótt minningarfyrirlesturinn væri að þessu sinni auglýstur á dagskrá Hugvísindaþings, var hann síður en svo betur sóttur en endranær. En Sogner náði athygli Morgunblaðsins sem birti við hana langt viðtal.

Íslandssaga í greinum

Safn Gunnars Karlssonar, efnisflokkaðar greinar um Íslandssögu (nefnt til styttingar "Íslandssaga í greinum"), var árið 1999 fengið Sagnfræðistofnun til afnota með því fororði að það yrði gert aðgengilegt öllum sem vilja á Netinu. Stofnað var snemma árs til viðræðna við Landsbókasafn-Háskólabókasafn um möguleika á því að gögnin yrðu yfirfærð í hið væntanlega, nýja tölvukerfi, sem á að leysa Gegni og Greini af hólmi, og grunninum síðan haldið við á vegum safnsins. Kom fram áhugi á þessu hjá Landsbókasafnsmönnum; en m.a. vegna dráttar á að ákvörðun yrði tekin um hið nýja tölvukerfi, þótti ráðlegast að láta málið bíða. Bráðabirgðagerð af "Íslandssögu í greinum" var færð á Netið í umsjá Más Jónssonar (sjá Heimildir. is). Þá hafa Gunnar Karlsson og aðstoðarmaður hans unnið talsvert að því að leiðrétta villur í safninu og samræma eitt og annað í færslum.

Skýrslan var samþykkt á ársfundi stofnunarinnar 2. febrúar 2001.

Nýja stjórn skipa Loftur Guttormsson, Guðmundur Jónsson og Karólína Stefánsdóttir.