Íslenska söguþingið 2022

Íslenska söguþingið verður haldið í fimmta sinn árið 2022. Á dagskánni eru yfir þrjátíu málstofur auk erlendra heiðursfyrirlesara. Auk þess verður boðið upp á ýmsa viðburði, til dæmis móttöku og opna málstofu, sem að þessu sinni verður helguð heilbrigðissögu með sérstakri áherslu á farsóttir. Þingið fer fram í  Hamri, húsnæði menntavísindasviðs við Stakkahlíð. Auðveldast er að koma í gegnum inngang C, sem vísar að Háteigsvegi.

Við hvetjum öll til að skrá sig tímanlega á þingið þar sem að skráningargjöld hækka í 15.900 kr. (9.900 kr. fyrir nema) þann 9.maí.

Föstudaginn 20.maí að málstofum loknum mun fara fram styrkveiting úr Sagnfræðisjóði Björns Þorsteinssonar og mun Jón Atli Benediksson rektor afhenda styrkhöfum viðurkenningarskjöl. Léttar veitingar í boði Söguþings. Á laugardeginum 21.maí verður þinglokaveisla á Jörgensen, Laugavegi 120 við Hlemm. Skemmtiatriði og góð tilboð á barnum. Við hvetjum ykkur til að taka kvöldið frá. 

Smellið hér fyrir nánari upplýsingar um skráningu og greiðslu.

 

The fifth Icelandic historical congress will be held from the 19th until the 21st of May in the Hamar building in Stakkahlíð 1 (University of Iceland - School of Education). This year we offer over thirty seminars as well as the Jón Sigurðsson memorial lecture which will be held by professor Valerie Hansen on the 19th of May at 15.00.

 
Image
Söguþing 2022

Dagskrá fimmtudaginn 19. maí

  Bratti        
15.00 Minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar  

 

   

Minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar

Minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar 2021 flytur Valerie Hansen prófessor í sagnfræði við Yale Háskóla. Fyrirlesturinn verður fimmtudaginn 19.maí í hátíðarsalnum Bratta í Stakkahlíð.

"Long-distance ocean voyages of the Arabs, Africans, Chinese, Polynesians before 1492"

Which mariners traveled where before 1492? This talk will assess the different types of evidence--documentary, biological, archeological, and oral—that survive from Arab, African, Chinese, and Polynesian voyages to various locations on the planet and suggest some similarities among the different techniques employed by navigators from different societies. These earlier voyages paved the way for the voyages of Columbus, Magellan, and Da Gama before and after 1500.

Image
""

Dagskrá föstudaginn 20. maí

  Hamar 201 Hamar 202 Hamar 203 Hamar 204 Hamar 206
9.00-10.30 Frá goðavaldi til konungsvalds: Afstaða Íslendinga til Noregskonungs og stjórnmálabarátta Sturlungaaldar I. Nánar hér. Heimsins hnoss: Söfn efnismenningar, menningararfur og merking. Efnismenning og söguritun (fyrri málstofa) I. Nánar hér.

Saga og útgáfa fræðitímarita. Pallborð. Nánar hér.

Sögur og fylgdarmenn.
Nánar hér.
Býlið, byggðin og búskapurinn: Notagildi landupplýsinga við samanburð landsvæða um 1700. Nánar hér.
10.45-12.15 Frá goðavaldi til konungsvalds: Afstaða Íslendinga til Noregskonungs og stjórnmálabarátta Sturlungaaldar II. Nánar hér. Heimsins hnoss: Söfn efnismenningar, menningararfur og merking. Efnismenning og söguritun (fyrri málstofa) II. Nánar hér. Frá kynferðislegum útlögum til fyrirmyndarborgara. Tengsl hinsegin kynverunda og þjóðernis á Íslandi 1944–2010. Nánar hér. Hástéttir, sérfræðiþekking og ríkisvald á nítjándu og tuttugustu öld.
Nánar hér.
Handritamálið: bakgrunnur og framtíðarsýn. Nánar hér.
13.30-15.00 Kvenna(ó)samstaða. Nánar hér. Frá trúarbragðaskyldu til trúfrelsis — Nýgerving trúar og kirkju á Íslandi á 19. öld. Nánar hér. Staðarhóll í Dölum: Höfuðból í minjum, sögu og sagnaritun.
Nánar hér. 
Fjársjóður í fyrningum. Vannýttar heimildir úr skjalasöfnum fyrirtækja frá 19. og 20. öld. Nánar hér. Bíbí í Berlín – Fötlunarfræði og einsaga: Aðferðafræðilegar pælingar. Nánar hér.
15.15-16.45 Menning fátæktar: Þættir af sérkennilegu fólki. Nánar hér. Málstofa um Skaftárelda. Nánar hér. Málstofa um miðlunarsögu. Nánar hér. Oddi á Rangárvöllum: Lærdómsmiðstöð á miðöldum. Nánar hér.

Á heimilinu og í kjörklefanum. Kvennasögur í samhengi atbeina og borgararéttinda. Nánar hér.

 

 
 

Dagskrá laugardag 21. maí

  Hamar 201 Hamar 202 Hamar 203 Hamar 204 Bratti Hátíðarsalur
9.00-10.30 Norrænir menn í austurvegi. Nánar hér. Ísland í síðari heimsstyrjöld – eru öll kurl komin til grafar? Nánar hér. Heimsins hnoss: Söfn efnismenningar, menningararfur og merking: Efnismenningararfur (seinni málstofa) I. Nánar hér. Héraðsskjalasöfnin og sagan - þá, nú og framvegis.
Nánar hér.
 
10.45-12.15

Athafnakonur á Íslandi í sögulegu ljósi kyngervis og kynverundar. 
Nánar hér.

 

Einkaskjalasöfn – aðgengi, varðveisla og notkun.
Nánar hér.
Heimsins hnoss: Söfn efnismenningar, menningararfur og merking: Efnismenningararfur (seinni málstofa) II. Nánar hér. Utan vistarbands: Vinnandi fólk á átjándu og nítjándu öld. Nánar hér.  
13.30-15.00 Sagnfræði innan veggja Háskólans og utan.
Nánar hér.
Landnám og þróun byggaðar.
Nánar hér.
Heimildafjöll 18.aldar. Nánar hér. Áhugi og þátttaka Íslendinga og annarra Norðurlandabúa í róttækum stjórnmálabreytingum erlendra ríkja. Nánar hér.  
15.15-16.45         Opin málstofa:  Farsóttir í sögulegu ljósi.
Nánar hér.

 

Opin málstofa Söguþings 2022: Farsóttir í sögulegu ljósi

Í ljósi tíðarandans verður opna málstofa Söguþingsins tileinkuð sögu farsótta þar sem fjórir sagnfræðingar velta fyrir sér smitsjúkdómum í sögulegu samhengi og skoða áhrif þeirra á samfélagið hverju sinni. Erla Dóris Halldórsdóttir fjallar um hin óhugnanlega smitsjúkdóm holdsveiki í Noregi og á Íslandi og fyrstu einangrunarlögin. Gunnar Þór Bjarnarson tekur fyrir spænsku veikina, stöðu hennar innan sagnfræðinnar og baráttunni við heimildirnar. Kristín Svava Tómasdóttir fjallar um sóttvarnir á Íslandi við upphaf 20. aldar. Loks ræðir Ólöf Garðarsdóttir um glímuna við mislinga í Færeyjum og á Íslandi 1846. Nánar hér.

Image
""

Opnir fyrirlestrar

Auk heiðursfyrirlesturs Söguþings verður einnig boðið upp á tvo aðra fyrirlestra sem eru öllum opnir.

Zrinka Stahuljak flytur fyrirlesturinn „Medieval Fixers: History, Politics, Litterature“ á vegum Miðaldastofu í Lögbergi 101, fimmtudaginn 19. maí kl. 16:30. Nánari upplýsingar hér

Pernille Ibsen flytur fyrirlesturinn „My Seven Mothers & The Redstockings Movement in Denmark, 1970-1976“ í Auðarsal í Veröld þann 17.maí kl. 15.00. Þetta er Hátíðarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar 2022. Nánari upplýsingar hér

Image
Pernille Ipsen

Málstofur í stafrófsröð

Í Hamri 201 laugardaginn 20. maí kl. 10.45-12.15.

Á undanförnum áratugum hafa fræðimenn lagt aukna áherslu á að skoða að hvaða marki borgararéttindi verða til og mótast annars staðar en á vettvangi þjóðríkisins. Í því samhengi er meðal annars rætt um alheimsborgara (e. global citizens) og marglaga borgararéttindi (e. multi layered citizenship).  Ljóst er að langt fram eftir 20. öld veitti íslenska þjóðríkið konum ekki tækifæri til að standa jafnfætis körlum. Í málstofunni verður sjónum beint að konum sem horfðu út fyrir landsteinana í viðleitni sinni til að verða fullgildir borgarar. Rætt verður um alþjóðlegt samhengi húsmæðrapólitíkur milli- og eftirstríðsáranna þar sem húsmæður reyndu að gera sig gildandi í samfélaginu sem slíkar en stóðu þó um leið frammi fyrir því að njóta ekki fullra mannréttinda. Þá verður fjallað um nokkrar íslenskar myndlistarkonur sem gerðu garðinn frægan í útlöndum og þeirri spurningu varpað fram hvort þær hafi notið sömu viðurkenningar og fengið sömu tækifæri heima fyrir. Loks verður vikið að íslenskum verkakonum sem fluttu inn og nýttu þá mannréttindaorðræðu sem var í deiglunni hjá alþjóðastofnunum í eftirmála seinni heimsstyrjaldar. Rannsóknirnar eru afrakstur verkefnisins „Í kjölfar kosningaréttar“,  sem fjallar um atbeina íslenskra kvenna á stjórnmála- og menningarsviðinu á árunum 1915–2015. 

Fyrirlestrar:

  • Dr. Íris Ellenberger, lektor í samfélagsgreinum.  „Hinsegin kynverundir og íslenskar athafnakonur á fyrri hluta 20. aldar“ 
  • Dr. Laufey Axelsdóttir, nýdoktor í kynjafræði og Dr. Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði. „Að koma ull í tískuföt. Athafnakonur og frumkvöðlar í textíl á síðari hluta 20. Aldar“
  • Dr. Sigríður Matthíasdóttir, sjálfstætt starfandi sagnfræðingur. Athafnakona í þverþjóðlegu rými. Dagbókarfærslur veitinga- og verslunarkonunnar Pálínu Waage á Seyðisfirði í upphafi 20. Aldar

Málstofustjóri: Gyða Margrét Pétursdóttir, prófessor í kynjafræði.

Nánari upplýsingar um málstofuna.

Í Hamri 206, föstudaginn 20. maí kl. 15.15-16.45.

Á undanförnum áratugum hafa fræðimenn lagt aukna áherslu á að skoða að hvaða marki borgararéttindi verða til og mótast utan hefðbundins vettvangs stjórnmálanna. Eins hefur umræðan hverfst um tækifæri ólíkra þjóðfélagshópa til að iðka þessi réttindi. Slík nálgun miðar að því að huga betur að þeim hindrunum sem gerðu það að verkum að stétt, staða, kynþáttur og kyn kjósenda hafði áhrif á möguleika þeirra til að nýta þau réttindi sem þeim höfðu verið fengin með lögum. Um íslensku hliðina á þessari sögu er fjallað í bókinni Konur sem kjósa. Aldarsaga. Í tengslum við ritun bókarinnar var efnt til rannsóknarverkefnisins: „Í kjölfar kosningaréttar. Félags- og menningarsöguleg rannsókn á konum sem pólitískum gerendum 1915–2015“, sem hlaut styrk frá Rannís. Rannsóknirnar sem kynntar eru í málstofunni eru afrakstur rannsóknarverkefnisins. Viðfangsefnin eru ólík en öll eiga það sameiginlegt að þar liggur atbeini kvenna og borgararéttindi til grundvallar: Að hve miklu leyti gátu þær nýtt sér borgararéttindi sín og hvernig voru þau takmörkuð í krafti ríkjandi hugmynda um kyngervi. Við sögu koma konur í óhefðbundnum samböndum þar sem spurt er um valdamynstur stéttar og kyns, spurningin um gerendahæfni kvenna í stjórnmálum og gamlar konur sem eru hvattar til að greiða atkvæði heima hjá sér og loks frelsið sem konur fundu eða áttu að finna með tilkomu pillunnar eftir 1960.

Fyrirlestrar:

  • Erla Hulda Halldórsdóttir og Ragnheiður Kristjánsdóttir. „Ósjálfráðu atkvæðin. Viðhorf til kvenkjósenda og heimakosningarnar 1923 og 1944
  • Kristín Svava Tómasdóttir. „„Jeg þvoði, af því jeg er ekki verslunarmær“. Stétt, kyn og náin sambönd í dagbók Guðlaugar Guðmundsdóttur vinnukonu
  • Ása Ester Sigurðardóttir. „Fagnaðarefni og hættuspil. Fyrstu ár pillunnar á Íslandi

Málstofustjóri: Ása Ester Sigurðardóttir

Nánari upplýsingar um málstofuna.

 

Í Hamri 204, laugardaginn 21. maí kl. 13.30-15.00.

Hvað veldur því að fólk fær brennandi áhuga á stjórnmálabaráttu í öðrum löndum? Af hverju eru fólk tilbúið til að ferðast langar leiðir og taka þátt í hreyfingu, jafnvel stríði, fyrir fólk sem það hefur aldrei hitt? Í þessari málstofu verða skoðuð þrjú ólík mál sem vöktu mikinn áhuga hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum í hugmyndafræðilegu samhengi.

Í tengslum við gríska sjálfstæðisstríðið 1820–1830 varð til fjölþjóðleg hreyfing svokallaðra fílhellenista sem studdu málstað Grikkja. Innan danska ríkisins, þ.m.t. á Íslandi, var þó nokkur umræða um stríðið og nokkrir Danir ferðuðust til Pelópsskaga í von um að geta lagt Grikkjum lið. Þessi fjölþjóðlegi stuðningur við Grikki átti sér ýmsar hugmyndafræðilegar ástæður og þar var stuðningur dönsku fílhellenistanna engin undantekning.

Rúmri öld síðar reið spænska borgarastyrjöldin yfir. Hún vakti mikla athygli og eldmóð langt út fyrir landsteinana og á Íslandi var mikil umræða um stríðið. Vitað er um a.m.k. þrjá Íslendinga sem ferðuðust til Spánar til að berjast með lýðveldissinnum. Margir töldu að ef fasistar sigruðu á Spáni ættu önnur lönd einnig í hættu að enda undir járnhæl slíkra öfgastjórnmálaafla.

Eftir að kommúnistar sigruðust á herjum þjóðernissinna í Kína árið 1949 fögnuðu íslenskir sósíalistar því ákaft. Skrifaðar voru bækur, félag var stofnað um samskipti landanna, Kínversk-íslenska menningarfélagið (KÍM), og nokkrir hinna áhugasömu fóru í sendiferðir til Kína. En hvernig passaði þessi atburður inn í heimsmynd Íslendinga á þessum tíma?

Markmiðið er að skoða hvað olli áhuga á þessum ólíku erlendu atburðum. Kannað verður hvort skyldar ástæður hafi verið að baki eða hvort um gerólíka atburði hafi verið að ræða. Reynt verður að rannsaka hvernig fjölþjóðlegir hugmyndastraumar í tengslum við þessa stóru erlendu atburði birtust hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum. Síðast en ekki síst verður skoðað hvort þessir hugmyndastraumar hafi haft einhver séreinkenni hér á landi eða fyrst og fremst verið hluti stórra fjölþjóðlegra hreyfinga.

Fyrirlestrar

  • Arnór Gunnar Gunnarsson. „„Þessi mikla grimd Tyrkja gjegn kristnum“: Stuðningur innan danska ríkisins við sjálfstæði Grikkja 1820–1830 í hugmyndafræðilegu samhengi“
  • Ari Guðni Hauksson. „Íslenskir sjálboðaliðar í spænsku borgarastyrjöldinni 1936–1939 og ástæður fyrir þátttöku þeirra í styrjöld á erlendri grundu“
  • Friðrik Sigurbjörn Friðriksson. „„Gríðarlegur liðsstyrkur“: Kommúnistabyltingin í Kína árið 1949 séð frá Íslandi“

Málstofustjóri: Nanna Kristjánsdóttir

Nánari upplýsingar um málstofu.

Í Hamri 206, föstudaginn 20. maí kl. 13.30-15.00.

Bíbí hét fullu nafni Bjargey Kristjánsdóttir (1927–1999) en hún var kennd við kotbæ foreldra sinna sem hét Berlín. Hún þótti bráðgert barn en veiktist á fyrsta ári og var síðar merkt sem ,,fáviti“ af fölskyldu sinni og sveitungum. Bíbí var höfð sem hornreka á heimilinu framan af og var falin fyrir gestum og gangandi. Sjálfsævisaga hennar ber þó vott um góða greind og innsæi í líf sitt og aðstæður. Í sögu sinni lýsir Bíbí meðal annars hvernig hún fann lífi sínu farveg í garðrækt og brúðusafni sem hún ánafnaði Þjóðminjasafni Íslands eftir sinn dag. Sjálfsævisaga Bíbíar er afar umfangsmikil en hún telur alls 120 þúsund orð. Bíbí skrifaði sjálfsævisögu sína í einrúmi, hélt henni leyndri fyrir fjölskyldu sinni og samferðafólki og fáir vissu af tilvist hennar.

Í þessu þriggja ára rannsóknarverkefni verður sjálfsævisaga Bíbíar og hinar mörgu hliðar á lífi hennar könnuð. Meginmarkmið rannóknarinnar er að greina þá flóknu og samtvinnuðu sögulegu, menningarlegu og félagslegu þætti sem höfðu áhrif á líf Bíbíar og skópu samfélagsleg viðhorf í garð fatlaðs fólks. Rannsóknin tengir saman tvö fræðasvið, fötlunarfræði og einsögu í þeim tilgangi að skapa nýja gagnrýna hugsun og umræðu um fatlað fólk í sögu og samfélagi. Til þess að auka enn frekar skilning á sjálfsævisögu Bíbíar og yfirfæra á reynslu fatlaðra kvenna í nútímanum felst hluti rannsóknarinnar í samvinnurannsókn sem felur í sér að hópur fatlaðra kvenna verður fenginn til að greina sögu Bibíar.

Ekki er vitað til að sjálfsævisögur sambærilegar Bíbíar finnist á Íslandi og þær eru fátíðar í alþjóðlegu samhengi. Fyrirlestrar okkar þriggja munu fjalla um rannsóknina sem er framundan.

Fyrirlestrar

  • Guðrún V. Stefánsdóttir prófessor í fötlunarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. „Bíbí í Berlín – sjálfsævisaga sem andsaga“
  • Sólveig Ólafsdóttir doktorsnemi í sagnfræði við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. „Hverju tóku presturinn og læknirinn eftir hjá litlu stelpunni?“
  • Sigurður Gylfi Magnússon prófessor í menningarsögu við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. „Ein saga, ein manneskja – Mikilvægi einsögulegra rannsókna fyrir fötlunarfræðirannsóknir“

Málstofustjóri: Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor í menningarsögu við Háskóla Íslands

Nánari upplýsingar um málstofu.

Í Hamri 206, föstudaginn 20. maí kl. 9.00-10.30.

Í íslenskum sagnfræðiritum um bændasamfélagið er frekar fátítt að sjá samanburð á búsetuháttum, félagsgerð og efnahag milli landsvæða. Stafræna tæknin og ekki síst landupplýsingatæknin auðvelda mjög slíkan samanburð og bjóða upp á ótal möguleika á að rannsaka samspil samfélags og náttúrulegs umhverfis eftir svæðum og landshlutum. Í rannsóknarverkefninu Undirstöður landbúnaðarsamfélagsins hefur verið búinn til gagnagrunnur um einstaklinga, fjölskyldur og heimili, býli og jarðir á öllu landinu í byrjun 18. aldar þar sem byggt er á jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín og manntali og kvikfjártali 1703. Í grunninum eru upplýsingarnar tengdar og landfræðilega hnitaðar svo úr verður öflugt rannsóknatæki sem gerir okkur kleift að kanna landfræðilegar víddir lifnaðarhátta á þessum tíma. Í málstofunni verða kynntar bráðabirgða-niðurstöður úr þremur efnisþáttum rannsóknarinnar og sjónum beint að landfræðilegum samanburði á búsetu, jörðum, tekjum og efnahag heimila.

Fyrirlestrar

  •  Ingibjörg Jónsdóttir. Búsetulandslag á Íslandi í upphafi 18. aldar
  • Guðmundur Jónsson. Jarðaskipan og eignarhald á jörðum á Íslandi um 1700

  • Óskar Guðlaugsson. Tekjur og framleiðsla bændaheimila í upphafi 18. aldar

Málstofustjóri: Guðmundur Jónsson

Nánari upplýsingar um málstofu.

Í Hamri 202, laugardaginn 21. maí kl. 10.45-12.15.

Einkaskjalasöfn eru mikilvægur heimildaflokkur fyrir sagnfræðinga og þá sem rannsaka söguna. Þau hafa menningarlegt gildi fyrir samfélagið og án þeirra væru heimildir um fyrri tíma fátæklegri. Mikilvægur þáttur í öllum sagnfræðirannsóknum er notkun frumheimilda og eru einkaskjalasöfn einn hluti þeirra. Það er m.a. hlutverk vörsluaðila einkaskjalasafna að kappkosta að varðveittar verði heimildir sem gefa hvað skýrasta mynd af samfélagi fyrri ára og að ólík sjónarmið um hina ýmsu þætti mannlegs samfélags varðveitist og verði aðgengilegar fyrir almenning og fræðimenn. Í þessari málstofu verður varpað ljósi á hvernig er staðið að varðveislu, söfnun og aðgengi að einkaskjalasöfnum hér á landi og hlutverk skjalavörslustofnana í því samhengi skoðað. Þá verður einnig skoðað hvernig einkaskjalasöfn nýtast til rannsókna og á hvaða hátt einkaskjöl geta varpað öðru ljósi á söguna, og stundum nýju ljósi, sem ekki er að finna í örðum heimildaflokkum.

Fyrirlestrar:

  • Ólafur Valdimar Ómarsson, skjalavörður í Þjóðskjalasafni Íslands. „Niðurstöður könnunar á varðveislu einkaskjalasafna á Íslandi sem framkvæmd verður í janúar til mars 2021“
  • Sólborg Una Pálsdóttir, héraðsskjalavörður Skagfirðinga. „Söfnun einkaskjala í Skagafirði í fortíð, nútíð og framtíð“
  • Helga Hlín Bjarnadóttir, skjalavörður í Þjóðskjalasafni. „Rannsókn á einkaskjalasafni Arnfríðar Þorkelsdóttur (1830-1885) lausakonu í Reykjavík“
  • Bragi Þorgrímur Ólafsson, fagstjóri handritasafns Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. „Varðveisla, aðgengi og rannsóknir á einkaskjalasöfnum í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns“
  • Guðrún Laufey Guðmundsdóttir, sérfræðingur í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafni. „Eiríkur Hallsson, sálmar, rímur og sögusagnir. Varðveisla handritasafns frá 17. öld“

Málstofustjóri: Gunnar Örn Hannesson, fagstjóri skráninga í Þjóðskjalasafni Íslands. 

Nánari upplýsingar um málstofu.

Í Hamri 204, föstudaginn 20. maí kl. 13.30-15.00.

Í daglegu amstri verður til ógrynni rafrænna skjala um hversdagslíf okkar. Kortafærslur í bókhaldi verslana, vörupantanir, innkaupakvittanir og skjöl af ýmsum toga, sem vitna um okkar persónulegu hagi og einkalíf. Þetta eru skjöl sem við viljum ekki að komist í almenna dreifingu.

Á Þjóðskjalasafni Íslands er nýlega lokið skráningu á ríflega 300 skjalasöfnum fyrirtækja og verslana frá 19. og 20. öld, svonefndu Hagsögusafni. Skjalasöfnin eru alls staðar að af landinu og úr fjölbreyttum rekstri og möguleikar til rannsókna því margir.

Í þessari málstofu verður Hagsögusafn Þjóðskjalasafns kynnt til sögunnar, tilurð þess og umfang. Þá verður fjallað um skráningu og rannsókn á yfir 1000 ómerktum skjalabókum úr safnkostinum. Að lokum verður fjallað um varðveislu fyrirtækjasafna á Íslandi, notkun þeirra til sagnfræðirannsókna og þá möguleika sem felast í heimildum af þessum toga.

Fyrirlestrar

  • Jón Torfi Arason. „1000 verslunarbækur af óljósum uppruna“
  • Gunnar Örn Hannesson. „Hagsögusafn í tíma og rúmi“
  • Guðmundur Jónsson. „Tækifærin í fyrirtækjasögunni

Málstofustjóri: Gunnar Örn Hannesson.

Nánari upplýsingar um málstofu.

Í Hamri 201, föstudaginn 20. maí kl. 9.00-12.15.

Tímabilið frá landnámi Íslands til falls goðaveldisins hefur lengi verið vinsælt viðfangsefni meðal fræðimanna. Eitt helsta einkenni þessa tímabils er að þá var enginn þjóðhöfðingi á Íslandi. Þetta er merkileg staðreynd, ekki síst í ljósi þess að konungsvald var þá orðið útbreytt stjórnarform á meginlandi Evrópu, þar með talið á Norðurlöndum. Í þessu samhengi hefur því verið haldið fram að Noregskonunga hafi snemma dreymt um að ná yfirráðum yfir þeim löndum sem byggð voru úr Noregi. Þessi stefna hafi fengið byr í seglin þegar erkibiskupsstóll var settur í Niðarósi árið 1153 og náð hámarki þegar  Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd með gerð Gamla sáttmála árin 1262–64.

Í málstofunni verður fjallað um afstöðu Íslendinga til konungsvalds á goðaveldissöld og áhersla lögð á samskiptin við Hákon Hákonarson Noregskonung (1217–1263). Viðhorf íslensku valdastéttarinnar til norska konungsvaldsins verða skoðuð, samband hennar við Hákon gamla kannað og því velt upp hvort Noregskonungur hafi eflt ófrið í landinu af ráðnum hug til að brjóta Íslendinga undir vald sitt eða ná völdum á Íslandi til að friða landið. Þá verður sett fram ný kenning um ástæður þess að Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd með Gamla sáttmála árið 1262–64.

Fyrirlestrar:

  • Auður Ingvarsdóttir. „Viðhorf til konungsvalds í Landnámu og öðrum miðaldatextum“
  • Guðrún Ása Grímsdóttir. „Málin lögð í konungsdóm“
  • Helgi Skúli Kjartansson. „Stilla til friðar eða ná friði? Rýnt í orðalagið ná friði og íslenskum lögum“ í Gamla sáttmála“
  • Skafti Ingimarsson. „„Þá var mikill vetur“: Samalas-eldgosið árið 1257 og fall íslenska goðaveldisins“
  • Sverrir Jakobsson. „Innleiðing konungsvalds á Íslandi 1247–1281“
  • Úlfar Bragason: „Gerðist hann þá hirðmaðr Magnúss konungs: Um afstöðu Sturlu sagnaritara til konungsvaldsins“

Málstofustjóri: Skafti Ingimarsson

Nánari upplýsingar um málstofu.

Í Hamri 203, föstudaginn 20. maí kl. 10.45-12.15.

Á Íslandi, líkt og í mörgum öðrum vestrænum löndum, var samkynhneigð oft lýst sem erlendri ógn á 20. öld og henni var þannig haldið fyrir utan sjálfsmynd þjóðarinnar. Þjóðernisorðræða átti því þátt í að jaðarsetja samkynhneigða í samfélaginu. Nýleg rannsókn hefur þó sýnt að á 21. öld er Íslandi gjarnan lýst sem „hinsegin útópíu“. Þannig virðist sem hinsegin fólk, í það minnsta samkynhneigðir, hafi verið innlimaðir í þjóðina. Í þessari málstofu er rannsóknarverkefnið Frá kynferðislegum útlögum til fyrirmyndarborgara. Tengsl hinsegin kynverunda og þjóðernis á Íslandi 1944–2010 kynnt til sögunnar. Það er samstarfsverkefni fjögurra fræðimanna sem skoða samtvinnun hinsegin kynverunda og þjóðernis í opinberri orðræðu og bókmenntum á Íslandi á tímabilinu 1944–2010 út frá kenningaramma hinsegin fræða og sögu kynverundar.

Í verkefninu er fjallað um mismunandi birtingarmyndir hinsegin kynverunda, svo og hvernig þeim var stýrt, í opinberri orðræðu (blöðum, tímaritum, sjónvarpi og orðræðu stjórnmála og læknisfræði) og bókmenntum (skáldsögum, smásögum, ljóðum og leikritum). Um leið kanna rannsakendurnir hvernig þessar birtingarmyndir tengjast þjóðernisorðræðu og hugmyndum um íslenskt þjóðerni. Verkefnið byggir á fræðilegum skrifum um andóf, sjálfsverund og hinsegin gjörningshátt við greiningu á atbeina hinsegin fólks, viðnámsorðræðu og afstöðu hinsegin fólks og félagasamtaka til þjóðernisorðræðu. Hinsegin kynverund í sögu Íslands og íslenskum bókmenntum er skoðuð um leið og viðfangsefnið er sett í norður-evrópskt samhengi. Verkefnið er þannig greining á íslensku þjóðerni frá hinsegin sjónarhorni.

Í málstofunni verður fjallað um nálgun og fræðilegan grunn verkefnisins í heild og þá ólíku verkþætti sem ætlað er að draga upp mynd af tengslum hinsegin kynverunda og þjóðernis á tímabilinu 1944–2010, svo sem rannsóknir á orðræðum um alnæmi á Íslandi á níunda áratug 20. aldar, birtingarmyndir HIV og alnæmis í íslenskum skáldverkum og innlimun hinsegin fólks í meirihlutasamfélagið í gegnum orðræður nýfrjálshyggjunnar.

Fyrirlestrar

  • Íris Ellenberger. „Frá kynferðislegum útlögum til fyrirmyndarborgara. Frá hugmynd til rannsóknar“
  • Hafdís Erla Hafsteinsdóttir. „Hórsótt, kynvillingaplága eða versti óvinur mannkyns? Orðræður um alnæmi á Íslandi 1983-1989“
  • Ásta Kristín Benediktsdóttir. „Er skáldskapurinn besta sagnfræðin? Mánasteinn, Sjón og hinsegin saga 
  • Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hin ljúfa tilfinning að vera talinn með: Nýfrjálshyggja og innlimun hinsegin fólks í meirihlutasamfélagið á 10. Áratugnum“

Málstofustjóri: Erla Hulda Halldórsdóttir

Nánari upplýsingar um málstofu.

 

Í Hamri 202, föstudaginn 20. maí kl. 13.30-15.00.

Löngum voru ríki og kirkja samtengd og stýrðu flestum sviðum mannlífsins ofanfrá og niður. Trúarbragðaskylda var ein af stoðum stjórnskipunarinnar líkt og trúfrelsi er hluti nútímastjórnskipunar. Á einveldistímanum varð danskur konungur höfuð kirkjunnar og einráður um öll málefni trúarbragða samkvæmt gildandi stjórnlögum. Prestar voru einnig opinberir embættismenn í rúm 750 ár og störf þeirra stóðu í beinu samhengi við löggjöf í landinu og voru innt af hendi í umboði veraldlegs yfirvalds.  Prestar tóku til að mynda þátt í að dæma um réttindi manna að minnsta kosti fram á síðari hluta 18. aldar. Af þessum sökum verður kirkjusagan ekki skilin frá stjórnmálasögu landsins fyrr á tímum. Að jafnaði er þó ekki gerð grein fyrir þeim tengslum þegar saga stjórnskipunar er rakin.

Á 19. öld hófust umfangsmiklar breytingar á sviði trúarlífsins í takt við víðtæka nútíma- og lýðræðisvæðingu samfélags og menningar. Þjóðkirkja, trúfrelsi og fjölhyggja leystu trúarbragðaskyldu og ríkisátrúnað af hólmi. Uppbygging kirkjustofnunarinnar tók líka margvíslegum breytingum sem og hlutverk presta sem starfa nú á vegum þjóðkirkju sem að lögum er skilgreind sem trúfélag. Kenningar þýska guðfræðingsins Friedrichs Schleiermachers (1768-1834) höfðu mikil áhrif á þessa þróun í norðanverðri Evrópu og má skoða þjóðkirkju- og trúfrelsisákvæði stjórnarskrár okkar í ljósi þeirra. Þær má einnig greina í verkum áhrifamikilla einstaklinga á sviði íslenskrar kirkju á þessu skeiði.

Í málstofunni verður varpað ljósi á helstu þættina í trúarbragðaskyldu fyrri tíma og stiklað á stóru varðandi þróunina frá ríkisátrúnaði til frelsis og fjölhyggju.

Fyrirlestrar

  • Dr. Lára Magnúsardóttir. „Helstu vörður í þróun trúarbragðaskyldu og kirkju í stjórnmálasögu Íslands“
  • Dr. Skúli S. Ólafsson. „Matthías Jochumsson og únítarisminn. Fyrstu kynni Íslendinga af fjölhyggju?“
  • Hjalti Hugason, prófessor. „Trúfrelsi í framkvæmd 1874–1915. Um viðleitni til að útfæra ákvæði stjórnarskrárinnar 1874 með löggjöf og stjórnvaldsákvörðunum“

Málstofustjóri: Ævar Kjartansson mag. theol.

Nánari upplýsingar um málstofu.

Í Hamri 206, föstudaginn 20. maí kl. 10:45-12:15

Árið 2021 eru liðin 50 ár frá heimkomu handritanna og lyktum handritamálsins, einu stærsta milliríkjamáli Íslands á tuttugustu öld. Handritamálið var hluti af kröfu um skil handrita og skjala frá Danmörku sem má rekja allt til upphafs nítjándu aldar. Á málstofunni verður fjallað um jarðveg handritamálsins á nítjándu öld, deilur um sendingar á íslenskum handritum og skjölum til útlanda, innbyrðis átök Íslendinga, skil á skjölum úr dönskum söfnun til Íslands árið 1928, þátt handritamálsins í mótun íslensks þjóðernis á tuttugustu öld og horft til framtíðar.

 Fyrirlesarar

  • Bragi Þorgrímur Ólafsson: „„Óþjóðlegt hugsunarleysi.“ Handritamál nítjándu aldar
  • Gottskálk Jensson:  „Um skiptingu Árnasafns samkvæmt lögum danska þjóðþingsins frá 1965 og möguleikann á endurskoðun þeirrar skiptingar í ljósi núverandi aðstæðna“
  • Guðmundur Hálfdanarson „Hvar eiga handritin heima? Deilur um þjóðlegt tilkall til menningararfs“
  • Njörður Sigurðsson „Danska sendingin 1928, aðdragandi og eftirmálar“

Málstofustjóri: Már Jónsson.

Nánari upplýsingar um málstofuna.

Hamri 204, föstudaginn 20. maí kl. 10.45-12.15.

Viðfangsefni málstofunnar lýtur að samspili hástétta, sérfræðiþekkingar og nútímaríkisins á nítjándu og tuttugustu öld. Hugmyndasmiðir á borð við Max Weber og Michel Foucault hafa bent á að þróun nútímaríkisins var nátengd tilkomu fagstétta sem byggðu völd sín á formlegri menntun. Ríkið einokaði réttinn til að lögmæta starfsgreinar í samfélaginu og beitti sér jafnframt með beinum hætti fyrir formlegri menntun og fagstéttarmótun á afmörkuðum sviðum. Stjórnendur lögðu grundvöllinn að nýjum stéttum sérfræðinga til þess að tryggja vald sitt í sessi. Hástéttir nýttu sér að sama skapi formlega menntun og afmörkun fagstétta til að viðhalda völdum sínum, auði og stöðu milli kynslóða og beittu sér fyrir útþenslu valdsviðs hins opinbera sem þjónaði einnig hagsmunum þeirra. Erindin í málstofunni eiga það sameiginlegt að beina sjónum að tilkomu slíkra fagstétta — þar á meðal lögfræðinga, presta og verkfræðinga — sem gegndu lykilstöðum innan nútímaríkisins. Þessar valdastéttir nutu samfélagslegra yfirburða í krafti formlegrar menntunar og sérfræðiþekkingar en einkenndust jafnframt af einsleitum félagslegum bakgrunni þar sem flestir voru úr efri lögum þjóðfélagsins. Hóparnir voru nátengdir innbyrgðis í gegnum ættarvensl og hjónabönd auk þess sem meðlimir þeirra gengu í sömu skólanna. Sjónarhornið er alþjóðlegt og fjallað verður um hvernig þróunin tók á sig ólíka mynd í Frakklandi og Bandaríkjunum sem og Þýskalandi og Íslandi. Fjallað verður um hvernig fagstéttavæðing gerði rótgrónum valdastéttum kleift að viðhalda yfirburðastöðu sinni í gegnum byltingakenndar þjóðfélagsbreytingar auk þess sem spurt verður um áhrif lýðræðisþróunar og aukins aðgengis að menntun á uppbyggingu, sjálfsmyndir og áhrifavald stéttanna.

Fyrirlestrar

  • Dr. Sveinn Máni Jóhannesson, nýdoktor í sögu Bandaríkjanna við Edinborgar-háskóla.  „Tæknipólitík, verkfræðingar og þróun ríkisvalds í Bandaríkjunum á nítjándu öld“ 
  • Dr. Hrafnkell Lárusson, doktor í sagnfræði og sérfræðingur hjá Þjóðskjalasafni Íslands. „Feðraveldi og framfaraþrá: Um hnignun íslenska dyggðasamfélagsins undir lok 19.aldar“

Nánari upplýsingar um málstofu.

 

Bratti. Laugardagur 21.maí 15.15 til 16.45

Í ljósi tíðarandans verður opna málstofa Söguþingsins tileinkuð sögu farsótta. Undanfarin misseri hafa ýmis ný og gömul farsótta- og sóttvarnatengd hugtök orðið Íslendingum, eins og öðrum þjóðum heimsins, óvenjulega töm. Ekki aðeins læknar og heilbrigðisstarfsfólk heldur allur almenningur hefur velt fyrir sér fyrstu, annarri og þriðju bylgju farsóttarinnar, smitgát, sóttkví og einangrun, samkomubönnum, smitrakningu, sóttkvíða og smitskömm, sem og stórum spurningum á borð við jafnvægið milli sóttvarna og sjálfsákvörðunarréttar einstaklingsins.

Í þessari málstofu velta fjórir sagnfræðingar fyrir sér smitsjúkdómum í sögulegu samhengi og skoða áhrif þeirra á samfélagið hverju sinni. Erla Dóris Halldórsdóttir fjallar um hin óhugnanlega smitsjúkdóm holdsveiki í Noregi og á Íslandi og fyrstu einangrunarlögin. Gunnar Þór Bjarnarson tekur fyrir spænsku veikina, stöðu hennar innan sagnfræðinnar og baráttunni við heimildirnar. Kristín Svava Tómasdóttir fjallar um sóttvarnir á Íslandi við upphaf 20. aldar. Loks ræðir Ólöf Garðarsdóttir um glímuna við mislinga í Færeyjum og á Íslandi 1846.

 

Málstofan er styrkt af Heilbrigðismálaráðuneytinu

 

Málstofustjóri: Magnús Gottferðsson, prófessor í smitsjúkdómum

 

Fyrirlestrar:

  • Erla Dóris Halldórsdóttir. „Saga holdsveiki í Noregi og á Íslandi: Samanburðarrannsókn á holdsveiki í tveimur löndum“
  • Gunnar Þór Bjarnason. „Spænska veikin, sagnfræðin og samfélagið“
  • Kristín Svava Tómasdóttir. „Smitberar og sóttvarnir á Íslandi um og eftir aldamótin 1900“
  • Ólöf Garðarsdóttir. „Smitnæmir sjúkdómar í eyjasamfélögum. Ólíkar afleiðingar mislingafarsóttarinnar 1846 í Færeyjum og á Íslandi“

Í Hamri 203, laugardaginn 21.maí kl. 13.30-15.00

Átjánda öldin er heimildarík og á undanförnum árum hefur sífellt meira af gögnum um samfélag 18. aldar verið gerðar aðgengilegri notenum með útgáfu eða birtingu á vef. Efni málstofunnar eru þrír ríkulegir heimildaflokkar frá 18. öldinni og rannsóknir byggðar á þeim, skjöl Landsnefndarinnar fyrri 1770–1771, manntölin 1729, 1735, 1753 og 1762 og skjöl Yfirréttarins frá 1690–1800. Þjóðskjalasafn vinnur nú skipulega að því að birta bæði prentútgáfur þessara heimilda og vefbirtingu skjalanna.

Málstofustjóri: Jóhanna Þ.Guðmundsdóttir

 

Fyrirlestrar

  • Kristrún Halla Helgadóttir. Skráning manntala á 18. öld í ljósi víðtækrar upplýsingasöfnunar danskra stjórnvalda
  • Jóhanna Þ.Guðmundsdóttir. Hrossakaup og önnur viðskipti Landsnefndarinnar fyrri á Íslandi 1770–1771
  • Ragnhildur Hólmgeirsdóttir. „Stöðumunur einstaklinga gagnvart Yfirréttinum

Nánari upplýsingar um málstofu.

Hamri 202, föstudaginn 20. maí kl. 9.00-12.15.

Á Þjóðskjalasafni Íslands liggja tæplega 30 þúsund uppskriftir dánar- og skiptabúa frá lokum 17. aldar til upphafs þeirrar 20. Þessar heimildir segja sögu fólks, karla og kvenna, ungra sem aldinna, í gegnum persónulegar eigur þeirra við andlát eða gjaldþrot. Hér má finna allt frá heilu bújörðunum ásamt bústofni til fúinna timburfjala og slitinna nærhalda.

Þó hafa íslensk sagn- og efnismenningarfræði sinnt þessum gögnum tiltölulega lítið. Í þessari málsofu munu þátttakendur í öndvegisverkefninu Heimsins hnoss fjalla um söfn efnismenningar eins og þau birtast okkur í uppskriftunum. Rætt verður um efnisveruleika ákveðinna þjóðfélagshópa, tíðni og útbreiðslu ákveðinna hluta og áhalda og hvernig ný efnismenning gjörbreytti heimilishaldi Íslendinga. Eins verður rætt um dánarbúin sem gagnasöfn, hvernig þau urðu til og hvernig þau endurspegla sögulegan veruleika fortíðarinnar í gegnum hluti.

Fyrirlestrar

  • Már Jónsson. „Gagnagrunnur um skiptagögn. Umfang og aðgengi“
  • Arnheiður Steinþórsdóttir. „„Að selja við opinbert uppboð ýmislegt lausafé [henni] tilheyrandi“. Lagasetning og framkvæmd opinberra uppboða á persónulegum eigum Íslendinga“
  • Sigurður Gylfi Magnússon. „Söfnun og einkahagir. Einkaskjalasöfn og merking þeirra“
  • Kristján Mímisson. „Hvað liggur í hlutarins eðli? Um mismunandi birtingarmyndir hluta og sögulega þýðingu þeirra“
  • Ágústa Edwald og Gavin Lucas. „Frá munaði til nauðsynja. Kaffineysla, áhaldaeign og vinnuframlag á 19. öld“
  • Guðný Hallgrímsdóttir. „Sjálfstæðar konur á 18. og 19. öld? Tilraun til að meta efnahagslega stöðu kvenna“
  • Davíð Ólafsson. „Heimildir um læsisiðkun á seinni helmingi 19. aldar í dánarbúum og handritum“

Málstofustjóri: Kristján Mímisson

Nánari upplýsingar um málstofu.

Hamri 203, laugardaginn 21. maí kl. 9.00-12.15.

Íslenskum menningararfi hefur verið safnað saman á fjölda minjasafna víðs vegar um landið. Þessi söfn eiga það sameiginlegt að vera söfn efnismenningar sem vista, varðveita og sýna hluti fortíðar. Á þennan hátt móta þau og endurspegla íslenskan menningararf.

Í öndvegisverkefninu Heimisins hnoss er tekist á við þennan veruleika. Hvernig birtist fortíðin okkur í efnismenningarsöfnun dagsins í dag? Hvaða safna- og söfnunarstefnu hefur verið haldið uppi og hvernig endurspeglar hún birtingarmynd íslensks menningararfs? Þessi málstofa mun fjalla um söfn og sýningar sem bæði rannsóknar- og birtingarferli og hvernig þessi fyrirbæri—söfn og sýningar—móta menningararf og samfélagsvitund í gegnum þá hluti sem er safnað og settir á sýningu. Á hvaða hátt móta sýningar samfélagsvitund nútímans og hvers vel endurspegla þeir hlutir sem eru til sýnis efnisveruleika fortíðar?

Fyrirlestrar:

  • Þóra Pétursdóttir. „Miðlun á mannöld: Hugmyndir um menningararf og hlutverk minjasafna“
  • Ólöf G. Sigfúsdóttir. „„Grúsk í rykugum geymslum“: umfang, skipulag og viðhorf til rannsóknarstarfs á íslenskum söfnum“
  • Kristján Mímisson. „Hefur þjóð orðið til? Efnimenning, menningararfur og vitundarsköpun“
  • Anna Lísa Rúnarsdóttir. „Um menningu, mannúð og minjavörslu í upphafi 20. aldar“
  • Anna Heiða Baldursdóttir. „Hversdagslegir hlutir. Efnismenning í safnkosti Þjóðminjasafnsins“
  • Sigurjón Baldur Hafsteinsson. „Vandinn við varðveislu torfhúsa“
  • Þorgerður Þórhallsdóttir. „Silfur og skúfhólkar“

Málstofustjóri: Davíð Ólafsson

Nánari upplýsingar um málstofu.

Hamri 204, laugardaginn 21. maí kl. 9.00-10.30.

Héraðsskjalasöfn eru 20 á Íslandi, umdæmi þeirra ná yfir stærsta hluta landsins og flesta íbúa þess. Þau eru lykilstofnanir við að tryggja varðveislu skjala, forðabúr sagnfræðinnar í kringum landið.

Upphaflega voru þau stofnuð að hvötum áhugamanna um héraðssögu og hlutu svo stjórnsýslulegt hlutverk sem vörslustaðir opinberra skjala sveitarfélaga auk þess að varðveita skjöl úr fórum einstaklinga, félagasamtaka og fyrirtækja á sínu svæði.

Saga sprettur ekki upp úr engu, frá sjónarhóli sagnfræði eru skjölin krúnudjásn ritheimilda. Örugg varðveisla og miðlun áreiðanlegra og réttra skjala í samræmi við upprunaregluna þ.e. án íhlutunar skjalavörslunnar um innihald og samhengi er grundvallaratriði gagnvart borgurum og sagnfræðingum ekki síður en stjórnsýslu og stjórnmálum.

Það kostar mikla vinnu og kunnáttu að halda úti opinberum skjalasöfnum, þau eru mikilvægur atvinnuvettvangur sagnfræðinga, bæði í hlutverki starfsmanna og sem notenda. Héraðsbragur ræður miklu um aðbúnað héraðsskjalasafna. Rekstur þeirra er samofinn sjálfsstjórn sveitarfélaga og gagnsæi stjórnsýslu þeirra að ógleymdri sjálfsvitund og sögu íbúanna.

Í málstofunni verður fjallað um hlutverk héraðsskjalasafna og starfsemi í þágu sagnfræði og samfélags, áskoranir og tækifæri í starfsemi þeirra.

Fyrirlestrar:

  • Hrafn Sveinbjarnarson, héraðsskjalavörður Kópavogi. „Opinber skjöl – stjórnsýsla og sjálfstæði héraðsskjalasafna, rafræna, áreiðanleiki og saga“
  • Þorsteinn Tryggvi Másson, héraðsskjalavörður Árnessýslu. „Laga- og stjórnsýsluumhverfi opinberrar skjalavörslu og héraðssaga“

Málstofustjóri: Guðmundur Þorsteinsson

Nánari upplýsingar um málstofu.

 

Í Hamri 202, laugardaginn 21. maí kl. 9.00-10.30.

Síðari heimsstyrjöld og áhrif hennar á íslenskt samfélag hefur löngum verið sérstakt áhugaefni meðal sagnfræðinga. Styrjöldin hafði mikil áhrif á fjölmarga þætti íslensks samfélags og breytingarnar á samfélaginu urðu á margan hátt varanlegar.  Út hafa komið allmörg sagnfræðirit og greinar þar sem heimsstyrjöldin er í forgrunni með einum eða öðrum hætti. Margar þeirra byggja á heimildum sem varðveittar eru í skjalasöfnum.

Á málstofunni verður rætt um þau gögn, er varða síðari heimsstyrjöld og hernámið. Einkum þau sem varðveitt eru í Þjóðskjalasafni Íslands og hvernig þau nýtast til nýrra rannsókna. Sérstaklega verður fjallað um gögn er varða hið svokallað Ástand og hins vegar um handtökur ritstjóra Þjóðviljans 1941.

Samkvæmt lögum eru viðkvæm gögn lokuð í 80 ár frá tilurð þeirra. Gögn er varða viðkvæm mál frá fyrri hluta styrjaldaráranna eru því opin almenningi til skoðunar. Þó fræðimenn hafi áður fengið heimild til að rannsaka þessi gögn með sérstöku leyfi, hafa ýmsar takmarkanir verið á notkun gagnanna, einkum vegna persónuverndarsjónarmiða.

Yfirskrift málstofunar vísar til þess að í Þjóðskjalasafni Íslands er varðveitt gríðarlegt magn skjala, sem snerta þetta viðburðaríka tímabil í sögu landsins með ólíkum hætti. Skjalaskrár vísa ekki nema að hluta þessara gagna og því líklegt að ekki séu öll kurl komin til grafar þegar leitað er gagna um styrjaldarárin. Í fyrirlestrunum verður meðal annars farið yfir það flækjustig sem er fólgið í leit að gögnum í skjalasöfnum og hvernig skjalasöfn geta brugðist við kröfu fræðimanna til að gera gögn aðgengilegri en nú er.

 

Fyrirlestrar

  • Unnar Rafn Ingvarsson. „Leitin að stríðsgögnunum“
  • Benedikt Eyþórsson. „Ástandið í Þjóðskjalasafni Íslands“
  • Skafti Ingimarsson. „Andstaðan við hernámið – Fangelsun ritstjórnar Þjóðviljans 1941 í ljósi nýrra heimilda

Málstofustjóri: Unnar Rafn Ingvarsson

Nánari upplýsingar um málstofu.

Í Hamri 201, föstudaginn 20. maí kl. 13.30-15.00.

Í málstofunni verða flutt fjögur erindi, innblásin af nýlegum lokaritgerðum í sagnfræði, sem varpa ljósi á hvernig konur sköpuðu sér rými og mynduðu samstöðu í þeim tilgangi að hafa áhrif og leyfa rödd þeirra að hljóma á 20. öld. Á sama tíma voru konur svo sannarlega ekki einsleitur hópur með sömu skoðanir og því verður einnig skoðað að hvaða leiti þær voru ósammála.

Fyrsta erindið fjallar um sjónarhorn kvennahreyfingarinnar og einstaka kvenréttindakvenna á viðbrögð ríkisins við ástandinu. Á millistríðsárunum hafði verið kallað eftir siðferðiseftirliti og kvenlögreglu, ekki var brugðist við þeirri kröfu fyrr en samskipti íslenskra stúlkna og erlendra hermanna vöktu ugg með valdhöfum.  Í þessu erindi verður sjónum beint að því hvernig konur innan hreyfingarinnar litu á  fyrstu lögreglukonu Íslands og störf hennar. 

Næsta erindi beinir sjónum að almannarýminu. Þegar konur fengu nóg af því að heyra eingöngu karlmannsraddir í Ríkisútvarpinu tóku þær sig saman um að skapa sitt rými á dagskránni. Fjallað verður um ákveðna samstöðu innan kvennahreyfingarinnar gagnvart útvarpinu sem leiddi af sér vikulegan dagskrálið um málefni kvenna á árunum 1945-1954. Hver voru þau málefni og hvernig nýttu konur þennan miðil? 

Þriðja erindið færir okkur á stjórnmálasviðið og umfjöllunarefnið er Kvenfélag sósíalista. Var félagið saumaklúbbur, áróðurstæki eða stjórnmálaafl? Voru konurnar sem störfuðu þar líka hluti af Sósíalistaflokknum og unnu þar samhliða körlunum? Hvernig tóku þær þátt í stjórn- og félagsmálum? Hverjar voru leiðir sósíalískra kvenna til stjórnmálaþátttöku og áhrifa í samfélaginu?

Að lokum er fjallað um Samtök um Kvennalista. Hreyfingin sem átti uppruna sinn að rekja til Rauðsokkahreyfingarinnar vék frá þeim sjónarmiðum að kvennabarátta væri stéttabarátta og grundvallaði hugmyndafræði sína á sameiginlegum reynsluheimi kvenna. Ætlunin var að sameina konur þvert á ríkjandi pólitískan skala og mynda stefnumál út frá kvenlægum sjónarhóli. Eftir því sem árum leið kom þó í ljós að unnt var að mynda andstæðar skoðanir út frá þeim grunni.

Tilgangurinn með málstofunni er að greina rýmið og þær leiðir sem stóðu konum almennt til boða til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og þau vandamál sem spruttu óhjákvæmilega upp með kröfunni um samstöðu fyrir svo fjölmennan og fjölbreytilegan hóp. 

Fyrirlesarar

  • Agnes Jónasdóttir. „Kvennahreyfingin og ungmennaeftirlitið“
  • Arnheiður Steinþórsdóttir. „Krafan um kvennaþætti“
  • Rakel Adolphsdóttir. „Félagi kona. Um Kvenfélag sósíalista og stjórnmálaþátttöku sósíalískra kvenna“
  • Björn Reynir Halldórsson. „Öll mál eru kvennamál“

Málstofustjóri: Rakel Adolphsdóttir

Nánari upplýsingar um málstofu.

Í Hamri 202, laugardaginn 21. maí kl. 13.30-15.00.

Í þessari málstofu verður umfjöllunarefnið hvernig landið byggðist og hvernig byggð þróaðist í landinu.  Tekið verður mið af örnefnum, landkostum, fornleifafræði og landnytjum og vissulega notast við ritaðar heimildir eins og t.d. fornbréf, sögur og Landnámabók. Hvað geta fornleifaheimildir og ritheimildir sagt nýtt um þróun landnáms þegar þær eru lagðar saman? Hvað gefa 15. aldar heimildir um hálfkirkjur og bænhús til kynna um stéttagerð landnámsaldar? Hvað segja forn garðlög um landhelgun og landamerki? Hvernig myndaðist kjarni byggðar og skipulag og hvað er hægt að segja um þróun byggðar í landinu? Má sjá merki um pólítísk áhrifasvæði og hugmyndir manna um yfirráð lands?  Um landnám hófu menn að rita snemma á ritöld. Frá 13. og 14. öld eru varðveittar lýsingar á landnámi (byggðar á eldri texta frá 12.öld) þ.e. í varðveittum gerðum Landnámu og einnig eru landnámslýsingar í fjölmörgum Íslendingasögum sem eru frá 13.og 14.öld og jafnvel síðar.  Þessi vitneskja um landnám og landnámsmörk eru að mestu samhljóða en þó má sjá athyglisverð frávik milli gerða Landnámu.  Þessi munur getur gefið vísbendingar um þróun byggðar og samfélags.  Er hægt að sjá merki um hagsmuni 13. og 14. aldar manna í þessum landnámsmörkum?  Farið verður víða um landið í leit að svörum, um landnám Ingólfs á suðvesturhorninu, Hrunamannahrepp, Eyjafjörð og víðar. Leitað verður svara við ýmsum álitamálum og settar fram tilgátur og ný sjónarhorn.

Fyrirlesarar:

  • Auður Ingvarsdóttir.Landnámsfrásagnir Melabókar
  • Árni Daníel Júlíusson. „Landnám og byggðaþróun í Eyjafirði ca. 870 til 1400“
  • Helgi Skúli Kjartansson. „Landnám í Hrunamannahreppi“
  • Helgi Þorláksson. „Landnáma og „landnám Ingólfs““

Málstofustjóri: Axel Kristinsson.

Nánari upplýsingar um málstofu.

Í Hamri 203, föstudaginn 20. maí kl. 15.15-16.45.

Fjallað verður um hvernig sagnfræði er iðkuð og miðlað til almennings með öðrum hætti en akdamísk sagnfræði gerir, s.s. í  útvarpi, sjónrænum miðlum, á söfnum og sýningum og annars staðar.

Fyrirlesarar: Bjarni Harðarson rithöfundur og bóksali; Bogi Ágústsson, frétta- og  dagskrárgerðarmaður hjá RÚV; Bjarnheiður Jóhannsdóttir, athafnakona í Dölunum sem kemur að rekstri Eiríksstaða og Vínlandsseturs; Margrét Jónasdóttir, sagnfræðingur og kvikmyndaframleiðandi hjá Sagafilm; Skúli Björn Gunnarsson forstöðumaður Gunnarsstofnunar og stundakennari í Hagnýtri menningarmiðlun

 

Málstofustjóri: Sumarliði R. Ísleifsson

Í Hamri 202, föstudaginn 20. maí kl. 15.15-16.45.

Skaftáreldar voru „einn hinna þýðingarmestu viðburða í sögu Íslands á seinni öldum“, eins og Þorvaldur Thoroddsen komst að orði í útgáfu á eldriti séra Jóns Steingrímssonar árið 1907. Það rit hefur verið prentað nokkrum sinnum síðan og árið 1984 kom út sérlega vandað greinasafn um eldana og móðuharðindin sem fylgdu í kjölfarið. Þar voru einnig gefin út ýmis skjöl og lýsingar úr samtímanum. Jarðfræðingar og aðrir náttúruvísindamenn hafa á síðustu árum aukið ýmsu við um gosið og afleiðingar þess en sagnfræðingar legið á liði sínu. Í málstofunni verða teknir saman þræðir um nýjustu rannsóknir á eldunum sem slíkum en jafnframt kynntar þrjár ferskar athuganir á fornleifum og textum.

Fyrirlestrar

  • Þorvaldur Þórðarson, prófessor í jarðfræði. „Framvinda Skaftárelda og áhrif gossins á Íslandi“
  • Jón Kristinn Einarsson, BA í sagnfræði. „Neyðaraðstoð sumarið 1784 og séra Jón Steingrímsson“
  • Sveinbjörn Rafnsson, prófessor emeritus í sagnfræði. „Um eldgosin á Íslandi 1783–1785“
  • Már Jónsson, prófessor í sagnfræði. „Mannlíf í Meðallandi eftir gos“

Nánari upplýsingar um málstofu.

 

Í Hamri 201, föstudaginn 20. maí kl. 15.15-16.45.

Þessi málstofa tengist sameiginlegri rannsókn við öndvegisverkefnið Fötlun fyrir tíma fötlunar (e. „Disability before disability“) við Háskóla Íslands sem dr. Hanna Björg Sigurjónsdóttir stjórnar. Í málstofunni verður fjallað um fólk sem var á einhvern hátt hornreka í samfélögum fyrri tíðar og hvernig það bæði náði að þrauka Þorran og Góuna og um leið að hafa áhrif á samtíð sína með margvíslegum hætti. Hópurinn hefur leita fanga í jafn fjölbreyttum heimildum og þjóðlegum fróðleik (þættir af sérkennilegu fólki), í blöðum og tímaritum frá 19. og 20. öld, í Alþingisbókum Íslands (Acta comitiorum generalium Islandiæ) í ritröð sem Sögufélag gaf út í 17 bindum 1912–1914 og 1991 og safnað saman öllum þeim textum sem tengjast: 1) mannlýsingum; 2) einstaklingum með líkamlegar eða andlegar skerðingar í sem víðustum skilningi; 3) úrskurðum og meðferð yfirvalda á ómögum og fátæklingum. Farið með sama hætti yfir Fornbréfasafnið, Annála frá 1400–1800 og dánarbúsuppskriftir og allt þetta efni greint með fjölbreyttum hætti. Hugmyndin er að gera tilraun til að skilja það sem við nefnum „menningu fátæktar“, hvernig Íslendingar gerðu ráð fyrir að fætækt þrifist hér á landi í einni eða annarri mynd.

Fyrirlesara munu gera grein fyrir rannsóknum sínum en við búumst við að á sama tíma og Söguþingið fer fram verði komin út bók hópsins sem nefnist Þættir af sérkennilegu fólki sem verður gefin út í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar hjá Háskólaútgáfunni.

Fyrirlestrar

  • Sólveig Ólafsdóttir doktorsnemi í sagnfræði. „Lífsþræðir Jóns Gissurarsonar og Sólveigar Eiríksdóttur  tvinnaðir saman. Samanburður á yrðingum úr opinberum samtímaheimildum um tvo jaðarsetta einstaklinga á 19. öld“
  • Anna Heiða Baldursdóttir doktorsnemi í sagnfæði. „Efnismenning á jaðrinum. Dánarbúsuppskriftir til frásagnar um fátæk vinnuhjú“
  • Marín Árnadóttir MA-nemi í sagnfræði. „„Í góðlátlegu gamni“: Einelti og ofbeldi í sögum af sérkennilegu fólki“
  • Daníel Guðmundur Daníelsson BA í sagnfræði. „Á vonarvöl. Félagsleg frávik í Annálum og Alþingisbókum Íslands“
  • Atli Þór Kristinsson. „Furður og framandi lönd: Erlendar fréttir og kynjasögur á 17. og 18. öld.“

Málstofustjóri: Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor í menningarsögu við Háskóla Íslands

Nánari upplýsingar um málstofu.

Í Hamri 201, laugardaginn 21. maí kl. 9.00-10.30.

Víkingaferðir norrænna manna á 8., 9. og 10. öld beindust bæði í vesturátt, til Norður-Atlantshafsins, Bretlandseyja og Vestur-Evrópu, og í austurátt, yfir sléttur Rússlands og alla leið til Konstantínópel. Þessi rannsókn felur í sér endurmat á ritheimildum um ferðir norrænna manna í Austurvegi, allt frá því að getið er um þá í frönskum annálum 838 og fram á 15 öld. Hér verður fjallað um norræna menn eins og þeir birtast í heimildum frá mismunandi menningarsamfélögum og hvernig veru þeirra í Austurvegi er lýst. Stuðst er við frumheimildir frá ýmsum menningarsamfélögum, s.s. Rómarveldi, kalífaríkinu, Garðaríki og Norðurlöndum. Sérstaklega er hugað að því hvernig væringjar voru hluti af sköpun sjálfsmyndar í ólíkum samfélögum og á mismunandi tímum. Rýnt verður í skrif arabískra landfræðinga um víkinga sem nefndust Rus og hvernig sú orðræða snýst að verulegu leyti um sjálfsmyndir. Arabískar heimildir hafa mikla sérstöðu varðandi sögu Rus á 9. og 10. öld og verður rýnt í nokkur einkenni þeirrar orðræðu. Einnig verður fjallað um hlutverk væringja í ríkismyndun í austur-slavneskum furstadæmum miðalda og hvernig væringjar urðu hluti af upprunagoðsögnum þeirra ríkja. Töluvert er getið um væringja í íslenskum miðaldaheimildum og hafa slíkar frásagnir vakið athygli fræðimanna víða um lönd en ekki hefur verið tekið tillit til þróunar rannsókna á Íslendingasögunum sem heimildum undanfarna áratugi. Ætlunin er að taka sögu væringja til endurskoðunar í heildrænu samhengi og leggja sérstaka áherslu á hvernig meta beri íslenskar heimildir um norræna menn í Austurvegi. Rannsóknin er hugsuð sem framlag til hugarfarssögu og til sögu miðaldaorðræðunnar um væringja.

Fyrirlestrar:

  • Þórir Jónsson Hraundal. „Væringjar í arabískum heimildum“
  • Daria Segal. „Slavonic sources on the Varangians”
  • Sverrir Jakobsson. „Hvenær uppgötvuðu Íslendingar væringja?“
  • Kjartan Jakobsson Richter. „Hetjudáðir Ólafs Tryggvasonar og Þorvalds víðförla í Austurvegi“

Málstofustjóri: Sverrir Jakobsson.

Nánari upplýsingar um málstofu.

Í Hamri 204, föstudaginn 20. maí kl. 15.15-16.45.

Í Oddarannsókninni er áhersla lögð á ritmenningu í Odda og á tímabilið 1100 til 1400. Kannað verður hvort Sæmundur fróði í Odda (d. 1133) hafi lagt grunn að lærdómsmiðstöð í Odda og hún hafi stuðlað að ritmenningu. Rök finnast til að ætla að í Odda hafi setið allmargir lærdómsmenn samtímis og myndað þar samfélag. Þetta hafa ekki aðeins verið alþekktir, klerkmenntaðir goðar heldur einnig aðrir vígðir menn sem sinntu ekki stjórnsýslu að marki en voru einkum bundnir kirkjulegu starfi og kennslu. Enn fremur prestlingar og væntanlega fróðleiksmenn líka. Sæmundur fróði setti stað í Odda og staðurinn hefur verið forsendan fyrir slíku samfélagi lærðra manna, kennslu og ritmenningu.  En hvernig var þetta unnt, hverjar eru hinar efnahagslegu skýringar?  Hvernig tengjast hin veraldlega umsýsla goðanna í Odda, klerkleg menntun þeirra og aðkoma þeirra að ritmenningu? Oddi mun hafa verið allt í senn, valdamiðstöð, kirkjumiðstöð og lærdómsmiðstöð og þetta var vísast allt nátengt. Verkefnið verður m.a. fólgið í að skýra tengslin og forsendur fyrir hinni þríþættu miðstöð. Til þess þyrfti að gefa gaum umhverfi og náttúru í Odda og forsendum fyrir búskap. Nýta þarf jöfnum höndum  umhverfisrannsóknir og ritheimildir um búskapinn.  

Fyrirlestrar

  • Helgi Þorláksson. „Ritmenning í Odda, 1100 til 1300, forsendur og markmið“
  • Viðar Pálsson. „Staður og lærdómur í Odda“
  • Gunnar Á. Harðarson. „Arngrímur Brandsson, prestur í Odda, ábóti á Þingeyrum“
  • Kristborg Þórsdóttir. „Efnahagslegar undirstöður héraðsveldis Oddaverja“

Málstofustjóri: Sverrir Jakobsson

Nánari upplýsingar um málstofu.

 
 

Í Hamri 203, föstudaginn 20. maí kl. 9.00-10.30.

Tímaritið Saga hefur komið út frá 1949 og hefur um áratuga skeið verið helsta fagtímarit sagnfræðinga á Íslandi. Það er eina fagtímaritið í heiminum sem er sérhæft á sviði Íslandssögu og birtir ritrýndar greinar sagnfræðinga og annarra fræðimanna um ólík svið og tímabil Íslandssögunnar. Saga birtir einnig styttri greinar af ýmsu tagi, ritdóma og ritfregnir, og er lifandi vettvangur fyrir umræðu um hugmyndir og aðferðir við ritun og miðlun sögu. Saga hefur ávallt höfðað bæði til leikra og lærðra og átt sér fleiri lesendur en mörg önnur fræðitímarit.

Rekstrarumhverfi Sögu er að mörgu leyti frábrugðið aðstæðum sambærilegra fræðitímarita á Íslandi og í nágrannalöndunum, þar sem Saga er gefin út af Sögufélagi, óháðum félagasamtökum, en ekki styrkt af til dæmis háskóla eða rannsóknarsjóðum. Rekstrarumhverfi vísindatímarita á Íslandi hefur jafnframt tekið stórtækum breytingum á undanförnum áratug. Vaxandi kröfur um opið aðgengi að niðurstöðum rannsókna, aukið vægi alþjóðlegra matskvarða á vægi tímarita í matskerfi opinberra háskóla og breyttar lestrarvenjur neytenda fræðilegs efnis með aukinni rafrænni útgáfu eru meðal helstu ástæðna þess að hefðbundin útgáfa fagtímarita á pappír stendur höllum fæti. Saga stendur því frammi fyrir ýmsum áskorunum sem takast þarf á við á komandi árum.

Ritstjórar og útgefendur Sögu vilja nota tækifærið á Söguþingi og efna til umræðu meðal sagnfræðinga um stöðu og framtíð tímaritsins, og útgáfu og starfsumhverfi fræðitímarita almennt. Frummælendur eru Guðmundur Hálfdanarson, Íris Ellenberger og Viðar Pálsson. Hvert þeirra flytur stutta framsögu og síðan taka þau þátt í pallborðsumræðum sem leiddar verða af ritstjórum Sögu.

Í Hamri 201, laugardaginn 21. maí kl. 13.30-15.00.

Í málstofunni er litið yfir farinn veg í rannsóknum, kennslu og útgáfu sagnfræðirita í sagnfræði við Háskóla Íslands í tilefni af 50 ára afmæli Sagnfræðistofnunar í ár. Rannsóknir undir hatti Sagnfræðistofnunar eru bornar saman við sagnfræði sem stunduð er á öðrum vettvangi í samfélaginu og rætt um hvort mikill munur sé á „háskólasagnfræði“ og annarri sagnfræðiiðkun, þ. á m. alþýðlegri sagnfræði (e. popular history) sem svo er stundum kölluð. Ef svo er, í hverju er þessi munur er fólginn? Einnig er velt upp þeirri spurningu hvort háskólasagnfræðin á Íslandi sé á réttri leið eða hefur hún ef til vill lent í of þröngu fari?

Fyrirlestrar

  • Bragi Þorgrímur Ólafsson, fagstjóri handritasafns Landsbókasafns Íslands. „Stefnur og straumar í háskólakennslu í sagnfræði 1977-2017“
  • Jakob Snævar Ólafsson, meistaranemi í sagnfræði. „Til hvers er Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands? Rannsóknir Sagnfræðistofnunar og áhrif þeirra á íslenska sagnfræði“
  • Gunnar Þór Bjarnason, sagnfræðingur. „Ósýnileg sagnfræði?“
  • Þórunn Erlu- og Valdimarsdóttir, sagnfræðingur og rithöfundur. „Hugvísindin til atvinnuveganna = fjöldans“

Málstofustjóri: Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði.

Nánari upplýsingar um málstofu.

Í Hamri 204, föstudaginn 20. maí kl. 9.00-10.30.

Sturlungaöld var mesti ófriðartími Íslandssögunnar en um leið mikið blómaskeið bókmenningar. Í málstofunni verða könnuð tengsl þessara þátta og sjónum einkum beint að heimilum höfðingja þar sem safnaðist saman fjöldi manna — fylgdarmanna — sem sérhæfðu sig í vopnaburði. Þeir voru eitt helsta valdatæki höfðingja og sköpuðu um leið tengsl milli þeirra og almennings í héraðinu, ýmist með vináttu eða ofbeldi. Fylgdarmannasveitir hafa lítið verið rannsakaðar fram að þessu og er full ástæða til að huga meira að þeim. Oft hafa bækur verið ritaðar á höfðingjasetrum eða fyrir höfðingjana og ætla má að tengsl séu milli þeirrar menningar sem birtist í bókmenntum, ekki síst Íslendingasögum, og þeirrar menningar sem var ríkjandi á höfðingjasetrunum og mótaðist að stórum hluta af nærveru hinna vopnuðu sveita fylgdarmanna. Þannig virðist líklegt að fylgdarmenn höfðingja hafi sett svip sinn á þá heimsmynd sem birtist í ýmsum Íslendingasögum og um leið hafi sögur, munnlegar eða ritaðar, mótað hugmyndaheim og gildismat fylgdarmanna. Sögur eru ekki tilgangslaus skemmtun heldur eru þær eitt helsta tækið sem mannleg samfélög hafa til að móta og samræma gildismat og hegðun meðlima sinna, eins og læra má af menningarlegri þróunarfræði. Það hefur gilt á Íslandi þrettándu aldar eins og annars staðar. Málstofan byggir á rannsóknarverkefni sem hlaut styrk hjá RÍM (Ritmenning íslenskra miðalda) árið 2020 og felur meðal annars í sér vinnslu gagnagrunns um þekkta fylgdarmenn nokkurra helstu höfðingja Sturlungaaldar. Einnig eru nokkur hugtök sem þeim tengjast könnuð í ýmsum greinum bókmennta eins og Íslendingasögum. Þeir sem halda fyrirlestra á málstofunni eru allir þátttakendur í þessu verkefni.

Fyrirlestrar

  • Viðar Hreinsson. „Fylgdarmenn í Íslendingasögum“
  • Axel Kristinsson. „Höfðingjar, sögur og fylgdarmenn“
  • Árni Daníel Júlíusson. „Fylgdarmenn og jarðir þeirra“

Málstofustjóri: Ingunn Ásdísardóttir.

Nánari upplýsingar um málstofu.

Í Hamri 203, föstudaginn 20. maí 13.30-15.00.

Markmið rannsóknarinnar er að varpa sem skýrustu ljósi á ritmenningu á slóðum Staðarhóls með áherslu á tímabilið 1100 til 1400. Sérstök áhersla verður á ritstörf Sturlu Þórðarsonar og handrit sem tengja má staðnum. Staðarhóll var höfuðból á 12. öld þegar Þorgils Oddason og synir voru meðal fremstu höfðingja á Íslandi. Árið 1191 kemst staðurinn í hendur Sturlunga og urðu um hann miklar deilur 1241 þar sem Sturla Þórðarson deildi við annan sonarson Hvamm-Sturlu, Órækju Snorrason, um forræði hans. Staðurinn var í eigu kirkjunnar að hálfu og kemur því við sögu í Staðamálunum undir lok 13. aldar. Á 16. öld komust veraldarhöfðingjar aftur yfir staðinn þegar Páll Jónsson (Staðarhóls-Páll) bjó þar. Meðal helstu rannsóknarefna eru tekjur staðarins og rekstur. Athugun á máldögum og öðrum skjölum staðarins er ætlað leiða í ljós hverjar tekjur Staðarhóls voru og hvernig þær þróuðust frá um 1100 og fram til um 1700. Einnig er ætlunin að kanna hvernig búskap og búrekstri háttað á Staðarhóli í gegnum aldirnar. Niðurstöður greiningar á þessum upplýsingum má nota til að varpa skýrara ljósi á þróunina á miðöldum, sem lesa má úr máldögum og öðrum fornbréfum. Annað mikilvægt rannsóknarefni er hvernig Staðarhóll tengdist þjóðleiðum yfir á Vestfirði. Þar eru könnuð sagnarit og máldagar frá því um 1100 og fram til um 1350. Í fornleifahluta rannsóknarinnar eru bæjarstæði Staðarhóls, hjáleigur, engjar og úthagar, seljalönd, ítök og auðlindir í forgrunni. Einnig verður hugað að víðara samhengi landshátta og gerðar athuganir á minjum í Staðarhólsdal, m.a. til að kanna varðveislu, en einnig til að kanna skipulag og þróun byggðar.  Rannsóknin í heild sinni mun færa okkur nær því að skilja staðarval, landshætti og samfélagi Staðarhóls á miðöldum, höfundinn Sturlu og verk hans. Í málstofunni verður greint frá fyrstu niðurstöðum.

Fyrirlestrar

  • Elín Ósk Hreiðarsdóttir og Kristborg Þórsdóttir. „Vitnisburður fornleifanna: Kortlagning menningarlandslags í Staðarhólsdal og nágrenni“
  • Sandra Gunnarsdóttir. „Þjóðleiðir í Dölum á hámiðöldum“
  • Emil Gunnlaugsson. „Staðarhóll. Auður, vald og menning 1100–1700“

Málstofustjóri: Sverrir Jakobsson.

Nánari upplýsingar um málstofu.

Í Hamri 204, laugardaginn 21. maí kl. 10.45-12.15.

Rannsóknir á sögu vinnandi fólks hafa á undanförnum árum tekið miklum breytingum. Með nýjum áherslum, aðferðum, hugtökum og kenningum hafa margir sagnfræðingar horfið frá ýmsum viðteknum viðmiðum í atvinnusögu (e. labour history), svo sem um tilurð verkalýðsstéttar samhliða iðnvæðingu, sem lengi einkenndu þessa undirgrein sagnfræðinnar. Þess í stað hefur sjónum í auknum mæli verið beint að margslungnu sambandi vinnandi fólks fyrri tíma við vinnuveitendur sína og nærsamfélag, að samfélagslegum áhrifum (og áhrifaleysi) atvinnulöggjafar sem byggði með einum eða öðrum hætti á þvingun og sambandi (og sambandsleysi) hennar við daglegt líf og störf verkafólks, á hreyfanleika vinnandi fólks innan og á milli ólíkra atvinnu- og hagkerfa, að atbeina vinnandi fólks og tækifærum þeirra til undanbragða og andófs sem og sjálfsbjargarviðleitni þeirra í samfélagi þar sem flesta innviði skorti.

Það er einkum í rannsóknum á vistarbandi sem borið hefur á þessum breyttu áherslum hér á landi. Atvinnuumhverfi Íslendinga á fyrri tíð, áður en nútíminn hóf innreið sína að fullu á tuttugustu öld, var þó ekki bundið við búskap og vinnumennsku eingöngu. Þrátt fyrir að tilvist lausamanna á átjándu og nítjándu öld, sem ýmist unnu almenna verkamannavinnu eða sérhæfð störf af einhverju tagi, sé vel þekkt hafa sagnfræðingar lítið rannsakað líf þeirra og störf. Það sama má segja um kaupafólk, sem ferðaðist árlega hundruðum saman á milli landshluta til árstíðabundinna starfa, og tómthús- og þurrabúðarfólk sem bjó við verstöðvar og verslunarstaði um allt land og hafði viðurværi sitt af sjósókn. Í málstofunni verður sjónum beint að þessum hópum verkafólks, lífi þeirra, starfsumhverfi, kjörum og margslungnu og mótsagnakenndu sambandi þeirra við atvinnulöggjöf og nærsamfélag á átjándu og nítjándu öld. Erindin taka með einum eða öðrum hætti mið af fyrrgreindum áherslubreytingum í rannsóknum á sögu vinnandi fólks í því skyni að skoða líf og störf íslensks verkafólks fyrri alda í nýju ljósi.

Fyrirlestrar:

  • Vilhelm Vilhelmsson. Doktorspróf í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra. „Lausamennskubannið 1783: Tilurð, tilgangur og túlkun“
  • Þórunn Þorsteinsdóttir. Msc-próf í sagnfræði frá Edinborgarháskóla. Verkefnastjóri við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra. „Lausamenn í Akureyrarkaupstað á fyrri hluta nítjándu aldar“
  • Harpa Rún Ásmundsdóttir. MA-nemi í sagnfræði við Háskóla Íslands. „„Heiðraða hreppsnefnd Súðavíkurhrepps“: Atvinnulöggjöfin og brottrekstur þurrabúðarfólks úr Súðavíkurhreppi á síðari hluta nítjándu aldar“
  • Emil Gunnlaugsson. MA-nemi í sagnfræði við Háskóla Íslands. „Kaupavinna á nítjándu öld“

Málstofustjóri: Vilhelm Vilhelmsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra.

Nánari upplýsingar um málstofu.